Innlent

Vonar að starfsmönnum sé létt eftir fund með Hönnu Birnu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra.
Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Vísir/Valli
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra boðaði starfsfólk ráðuneytisins á fund síðdegis í dag í kjölfar tíðinda undanfarins sólarhrings. Fundurinn stóð yfir í tæpa klukkustund þar sem ráðherra upplýsti starfsmenn um stöðu mála og svaraði spurningum.

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, segir í samtali við Vísi að ráðherra hafi viljað skýra málin fyrir samstarfsfólki sínu. Þórey hafi upplifað samkennd og stuðning á fundinum en viss léttir sé á meðal starfsmanna að málið sé upplýst. Mikið álag og óvissa hefur verið í ráðuneytinu vegna málsins. Sem kunnugt er var Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í dag fyrir að leka upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla. Hanna Birna þakkaði starfsfólki ráðuneytisins fyrir stuðninginn og lýsti yfir eindregnu trausti til þess.

Lekamálið svokallaða hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í tæpt ár eða síðan fyrrnefndar upplýsingar rötuðu til fjölmiðla. Þar til í gær var óupplýst hver hefði lekið upplýsingunum og fyrirhuguð var aðalmeðferð í málinu, sem ríkissaksóknari höfðaði á hendur Gísla, í dag. Starfsmenn úr ráðuneytinu voru meðal fjölmargra sem áttu að bera vitni en til þess kom ekki í kjölfar játningar Gísla.


Tengdar fréttir

Gísli Freyr bað samstarfsfólkið afsökunar

Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, bað samstarfsfólk sitt í innanríkisráðuneytinu afsökunar á lekanum í morgun.

Svona var atburðarásin í lekamálinu

Gagnvirk tímalína sem sýnir atburðarásina í lekamálinu sem varð til þess að Gísli Freyr Valdórsson var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.

Bjarni Ben: „Þetta er áfall fyrir okkur öll“

"Aðalatriði málsins eru þau að það er nú upplýst að sá sem treysti á sanngjarna málsmeðferð í dómsmálaráðuneytinu fékk ekki slíka meðferð,“ segir Bjarni.

„Ég ber ekki ábyrgð á lögbrotum“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segist bera pólitíska ábyrgð á sínum undirmönnum en hún beri hins vegar ekki ábyrgð á lögbrotum. Hún segist jafnframt vera búin að segja af sér embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×