Enski boltinn

Frábært að skora sigurmarkið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sigurmarkinu. vísir/getty
Gylfi Sigurðsson var hetja Swansea gegn Manchester United á Old Trafford í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar um helgina. Gylfi átti frábæran leik, en hann skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Swansea í 2-1 sigri.

Mikið var rætt um nýja tíma hjá Manchester United fyrir leikinn og fáir höfðu trú á því að Svanirnir myndu taka stigin þrjú.

„Það eru allir himinlifandi yfir að fara með þrjú stig af Old Trafford. Ég held að það hefðu allir verið sáttir hefðum við farið með eitt stig aftur heim til Wales, en að taka þrjú stig úr fyrsta leiknum er algjörlega frábært,“ sagði Gylfi sem var nýkominn frá sjúkraþjálfara þegar Fréttablaðið heyrði í honum í gær.

Gylfi var stuðningsmaður United í æsku og segir hann að það hafi verið stórkostleg tilfinning að skora í Leikhúsi draumanna (e. Theatre of Dreams), Old Trafford.

„Ég var stuðningsmaður United þegar ég var yngri og það var frábært að skora loksins á þessum velli, hvað þá sigurmarkið í leiknum.“

Gylfi Þór leggur boltann fyrir liðsfélaga sinn.vísir/getty
Fengu ekki mörg dauðafæri

Leikurinn var fyrsti leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn hollenska knattspyrnustjórans Louis Van Gaal.

Hollendingurinn hefur notast við leikkerfið 3-5-2 undanfarnar vikur en leikmönnum Swansea tókst vel að loka á það í leiknum.

„Það er dálítið öðruvísi að spila við þá, þar sem þeir eru með þrjá miðverði og bakverðir þeirra eru mjög ofarlega á vellinum. Við bökkuðum aftar og ég og Bony (Wilfried, framherji Swansea) sáum bara um miðjumenn þeirra. Við leyfðum þeim ekki að byrja neitt spil frá miðjumönnunum.“

Wayne Rooney jafnaði metin fyrir Manchester United í upphafi seinni hálfleiks en leikmönnum Swansea gekk vel að verjast sóknum heimamanna.

„Þeir fengu ekki mörg færi, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir breyttu svo um leikkerfi í hálfleik og fóru í 4-4-2. Þeir skoruðu úr hornspyrnu og það var mikil pressa á okkur í síðari hálfleik og við fórum of aftarlega, en við náðum að loka vel á þá og þeir sköpuðu sér ekki mörg dauðafæri.“

Gylfi Þór í baráttunni við 35 milljóna punda manninn Ander Herrera.vísir/getty
Miklar breytingar

Landsliðsmaðurinn er ánægður með að vera kominn aftur til Swansea og segir að félagið sé að þróast í rétta átt, frá því hann spilaði þar hálft tímabil.

„Það hafa verið töluverðar breytingar síðan ég var hér síðast. Það eru komin tvö aukaár sem félagið er búið að vera í úrvalsdeildinni og það er á uppleið. Það er verið að byggja nýtt æfingasvæði sem er nánast tilbúið, en það verður fullklárað í janúar eða febrúar. Aðstæður eru miklu betri og allt í kringum liðið hefur batnað síðan ég var hér síðast,“ sagði spyrnusérfræðingurinn og segir að leikmenn Swansea hafi ekkert farið fram úr sér eftir sigurinn á United.

„Það skiptir mestu máli að tryggja okkar sæti í deildinni á næsta tímabil og síðan förum við að hugsa um að enda tímabilið í efri hlutanum,“ sagði hann og segir að það hafi verið dálítið skrýtið að vera með Garry Monk sem þjálfara í upphafi, en Garry og Gylfi spiluðu saman síðast þegar Gylfi var hjá Swansea. Hann tók við liðinu af Michael Laudrup í febrúar eftir að hafa verið fyrirliði þess undanfarin ár.

„Það var dálítið skrýtið að vera með hann sem þjálfara fyrstu vikurnar. Maður er að venjast þessu núna og hann er mjög fínn. Hann bjóst ekki við þessu; að fá starf svona ungur sem þjálfari í úrvalsdeildinni, en hann er að nýta það tækifæri. Hann er mjög vel undirbúinn og fínn þjálfari,“ sagði Gylfi um fyrrverandi liðsfélaga sinn og núverandi þjálfara.


Tengdar fréttir

Monk: Þess vegna keyptum við Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson afgreiddi "sitt“ félag þegar hann skoraði sigurmarkið og lagði upp hitt í 2-1 sigri Swansea á Manchester United á Old Trafford.

Lykilatriðið er að fá að spila

Gylfi Þór Sigurðsson verður eini Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Gylfi gekk til liðs við Swansea á ný í sumar eftir tvö ár hjá Tottenham en hann hafði fengið nóg af því að sitja á bekknum eða vera út á kanti. Gylfi verður í eldlínunni með Swansea í hádegisleiknum gegn Manchester United.

Meulensteen: United þarf fjóra heimsklassaleikmenn

Fyrrum aðstoðarþjálfari Manchester United, Rene Meulensteen, telur að Louis Van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, þurfi fjóra heimsklassa leikmenn til þess að geta barist um Englandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×