Enski boltinn

Leicester í úrvalsdeildina eftir rassskellingu Leeds

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leedsarar skitu í heyið í kvöld.
Leedsarar skitu í heyið í kvöld. Getty

Lið Leeds United missteig sig hrapallega í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur er liðið tapaði 4-0 fyrir QPR í Lundúnum í kvöld. Úrslitin þýða að Leicester City fer aftur upp í fyrstu tilraun.

Leeds og Leicester hafa bæði verið í toppbaráttunni á leiktíðinni en baráttan hefur verið jöfn og spennandi síðustu vikur um tvö efstu sæti Championship-deildarinnar sem veita keppnisrétt í úrvalsdeildinni að ári.

Southampton og Ipswich hafa einnig háð þá baráttu en fyrrnefnda liðið skráði sig út úr henni með 5-0 tapi fyrir Leicester á dögunum. Leeds vann á sama tíma baráttusigur, 4-3 á Middlesbrough, en fylgdi honum sannarlega ekki eftir í kvöld.

4-0 rassskelling af hendi Queens Park Rangers á Loftus Road þýðir að Leeds mun að líkindum fylgja Southampton í umspil um sæti í úrvalsdeildinni. Liðin sem hafna í 3.-6. sæti fara í undanúrslit áður en úrslitaleikur á Wembley sker úr um hvaða lið fylgir tveimur efstu liðunum upp.

Leikmenn Leicester voru saman komnir að horfa á leik kvöldsins og líkt og sést á meðfylgjandi myndbandi fögnuðu þeir vel saman að honum loknum.

Úrslit kvöldsins þýða jafnframt að Leicester er öruggt með eitt tveggja efstu sætanna og því komið upp í ensku úrvalsdeildina á ný eftir að hafa fallið síðasta vor.

Líklegt þykir að Ipswich Town, sem eru nýliðar í deildinni eftir að hafa komið upp úr C-deildinni síðasta vor, fari beint upp með Leicester. Leicester er með 94 stig á toppnum og á tvo leiki eftir, Leeds er með 90 stig þar fyrir neðan en á aðeins einn leik eftir óspilaðan.

Ipswich á aftur á móti tvo leiki inni á Leeds, hefur aðeins leikið 43, og getur því mest fengið níu stig. Liðið er með 89 stig, aðeins einu frá Leeds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×