Erlent

Tilbúnir til að ráða Kim Jong Un af dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérstakt teymi sérsveitarmanna er tilbúið til að ráða Kim Jong Un af dögum með skömmum fyrirvara. Frá mótmælum gegn kjarnorkuvopnatilraunum Norður Kóreu í Seoul.
Sérstakt teymi sérsveitarmanna er tilbúið til að ráða Kim Jong Un af dögum með skömmum fyrirvara. Frá mótmælum gegn kjarnorkuvopnatilraunum Norður Kóreu í Seoul. Vísir/EPA
Yfirvöld Suður-Kóreu eru tilbúin til að ráða Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu af dögum með litlum fyrirvara komi til stríðs á Kóreuskaganum. Varnarmálaráðherra landsins tilkynnti þetta á þinginu í gær þegar hann var spurður hvort að ríkið hefði undirbúið áætlun til að ráða einræðisherran af dögum.

Han Min-koo bætti við að Suður-Kórea hafi undirbúið varnaráætlun sem feli í sér að ráða æðstu leiðtoga nágranna sinna af dögum komi til styrjaldar.

Sjá einnig: Tilbúnir til að gereyða Pyongyang

Samkvæmt CNN hefur lengi verið talið að áðurnefnd áætlun hafi verið til og hefur vakið furðu hve hreinskilinn Varnarmálaráðherrann var á þinginu.

Utanríkisráðherra kallaði í gær eftir því að vera Norður-Kóreu í Sameinuðu þjóðunum yrði endurskoðuð. Yun Byung-se sagði yfirvöld Norður-Kóreu gera lítið úr áhrifum Sameinuðu þjóðanna með kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunum sínum. Þetta sagði ráðherrann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.

Spennan hefur stigmagnast á Kóreuskaga eftir fimmtu kjarnorkuvopnasprengingu Norður-Kóreu og síendurteknar tilraunir með eldflaugar. Til stendur að herða viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu, en yfirvöld þar hafa þegar sagt að hótanir um hertar þvinganir séu hlægilegar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×