Erlent

Engin sönnunar­gögn bendla UNRWA við á­rásina

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna gegnir mikilvægu hlutverki í mannúðaraðstoð á stríðshrjáðu Gasasvæðinu.
Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna gegnir mikilvægu hlutverki í mannúðaraðstoð á stríðshrjáðu Gasasvæðinu. AP/Fatima Shbair

Ísraelsk yfirvöld hafa enn ekki komið fram með sönnunargögn sem bendla starfsmenn Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna við aðild að áhlaupi Hamasliða á Ísrael þann sjöunda október síðasta árs.

Þetta kom fram í skýrslu sem Catherine Colonna, utanríkisráðherra Frakklands, stýrði og var gerð fyrir Sameinuðu þjóðirnar í kjölfar þess að ásakanir Ísraelsmanna í garð hóps starfsmanna litu dagsins ljós. Samkvæmt skýrslunni hefur Flóttamannaaðstoðin sinnt tilkynningarskyldu sinni gagnvart ísraelskum yfirvöldum samviskusamlega. Fram kemur að Ísraelsmenn hafi haft í höndunum lista yfir alla starfsmenn Flóttamannaaðstoðarinnar frá 2011.

Ásakanir Ísraelsmanna í garð Flóttamannaaðstoðarinnar urðu til þess að fjöldi þjóða, þeirra á meðal Ísland, frysti greiðslur sínar til stofnunarinnar sem sinnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð á Gasasvæðinu og víðar.

Í skýrslunni kemur mikilvægi Flóttamannaaðstoðarinnar í mannúðaraðstoð við Palestínumenn á vergangi vegna stríðsins skýrt fram. Milljónir eiga í erfiðleikum með að útvega sér mat, vatni, skjóli og læknisaðstoð.

„Þar sem engin pólitísk lausn er á átökum Ísraela og Palestínumanna er UNRWA áfram lykilhluti þess að veita mannúðaraðstoð og nauðsynlega félagslega þjónustu, sérstaklega í heilbrigðis- og menntamálum, til palestínskra flóttamanna í Gasa, Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi og Vesturbakkanum,“ segir í skýrslunni.

Skýrslan leggur til úrbætur í eftirliti með starfsmönnum en jafnframt er bent á að starfsfólk sætir þegar talsvert strangara eftirliti en á öðrum sambærilegum hjálparstofnunum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×