Erlent

Tilbúnir til að gereyða Pyongyang

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingu hers Suður-Kóreu.
Frá æfingu hers Suður-Kóreu. Vísir/EPA
Sýni Norður-Kórea merki um beitingu kjarnorkuvopna mun her Suður-Kóreu gjöreyða Pyongyang. Eldflaugar og stórskotalið yrði notað til að brenna borgina til „ösku og þurrka hana af kortinu“. Samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar, sem rekin er af suðurkóreska ríkinu, yrði öllum hverfum höfuðborgar Norður-Kóreu eytt, en sérstaklega yrði miðað á mögulega felustaði leiðtoga ríkisins.

Norður-Kórea sprengdi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni á fimmtudaginn og var í fimmta sinn sem slíkt er gert. Sprengingin var sú stærsta hingað til. Þeir segja að þeim hafi tekist að þróa kjarnorkuvopn sem hægt sé að koma fyrir á eldflaugum.

Yfirlit yfir kjarnorkusprengingar Norður-Kóreu.Vísir/GraphicNews
Alþjóðasamfélagið íhugar nú hvernig bregðast eigi við kjarnorkuvopnatilraunum Norður-Kóreu. Þar á meðal vinnur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að viðskiptaþvingunum, Bandaríkin íhuga eigin þvinganir sem og Japan og Suður-Kórea.

Yfirvöld í Pyongyang sögðu hins vegar í dag að hótanir um „tilgangslausar“ viðskiptaþvinganir væru hlægilegar.

Þingmenn ríkisstjórnar Suður-Kóreu hafa kallað eftir því að Bandaríkin komi skammdrægum kjarnorkuvopnum aftur fyrir þar í landi og að Suður-Kórea komi mögulega upp eigin kjarnorkuvopnum.

„Einungis kjarnorkuvopn virka til að fyrirbyggja notkun kjarnorkuvopna,“ sagði þingmaðurinn Won Yoo-chul í yfirlýsingu eftir tilraunasprengingu Norður-Kóreu. Hann kallaði eftir því að yfirvöld landsins öðluðust kjarnorkuvopn og hefur hann fengið víðtækan stuðning. Ríkisstjórnin segir það þó ekki koma til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×