Innlent

Ræddu um kirkjuheimsóknir skólabarna: Segir skoðanir Ásmundar eiga heima á 15. öld

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hart var tekist á í Bítínu á Bylgjunni í morgun um heimsóknir skólabarna í kirkjur á aðventunni auk þess sem tengsl kristinnar trúar og skólakerfisins var rædd. Gestir þáttarins voru Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, og Ásmundur Friðriksson, sem situr á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ásmundur er mjög óhress með umræðuna og hvernig Reykjavíkurborg hefur háttað sínum málum. Borgaryfirvöld heimila heimsóknir í kirkjur en prestum er ekki heimilt að flytja hugvekju í slíkum heimsóknum. Ásmundur vill ganga lengra í þessum málum og vill að börnum verði áfram gefið Nýja testamentið í skólaheimsóknum.

Hann telur um vera að ræða réttindi meirihlutans og að skólastjórnendur þori ekki að ganga gegn „þessum háværa, algjöra minnihluta.“ Ásmundur sagði ennfremur að þeir sem væru á móti kirkjuheimsóknum væri fámennur hópur „sem er svo hávær og hefur góðan aðgang að fjölmiðlum og öðru, að koma sínu á framfæri í gegnum pólitíkina og slíkt."



21 prósent skólabarna ekki í þjóðkirkjunni


Líf telur ekki hægt að leyfa meirihlutanum að ráða slíkum málum, því ekki eigi að kjósa um mannréttindi. Hún telur að skólayfirvöld eigi ekki að hampa einum söfnuði fram yfir annan og bendir á að 21% grunnskólabarna séu ekki skráð í þjóðkirkjuna.

„Þetta er líka spurning um það að við viljum ekki setja börn í einhverjar aðstæður þar sem þau þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum, eða lífsskoðunum og trú foreldra sinna." Hún bendir á að skólar séu opinberar stofnanir og eigi að gæta hlutleysis þegar það kemur að trúarbrögðum.

Líf lýsti upplifun sinni af heimsókninni í þáttinn á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún: „Mætti 15. öldinni á Bylgjunni í morgun. Stuð.“

Í þættinum sagði Líf að heimsóknir í kirkju gætu vel verið skipulagðar utan skólatíma. Hún sagði að einn skóli hefði farið þessa leið; að hætta að fara í skipulagðar heimsóknir í guðshús. Kirkjan bauð börnunum þá til sín eftir skóla. Fyrsta árið hefði það gengið vel, margir hefðu mætt, en á öðru ári hefði fjarað undan þessu og eingöngu fimm prósent mætt. Hún sagði að þetta væri góð aðferð, að kirkjan auglýsti starf sitt fyrir foreldrum og byði börnum til sín að skóla loknum.

Sykursjúkt barn þýddi bann við sætindum

„Ég náttúrulega bara skil ekki þessa minnimáttakennd í algjörum minnihluta þjóðarinnar," sagði Ásmundur í kjölfar þessarar frásagnar Lífar. Ásmundur segir að við Íslendingar eigum að kynna kirkjuna okkar með stolti og vill ekki að minnihluti geti stoppað það. Hann líkti þessu við að ef eitt barn væri með sykursýki í einhverjum skóla þyrfti að banna öll sætindi.



„Þetta snýst ekkert um það," svaraði Líf.

„Þið eruð á móti kristinni trú. Þið eruð fámennur hópur," fullyrti Ásmundur.

„Við?" spurði Líf á móti.

„Þið sem eruð að predika þetta að börnin megi ekki...að börnin hafi skaða af því að fara í kirkjurnar," sagði Ásmundur.

„Það hefur enginn sagt það," svaraði Líf.

„Ég segi nú bara að við sem menningarþjóð, sem byggjum okkar menningu á, ja til dæmis Íslandssögunni. Ætlum við að segja að Íslandssagan sé bara lygi og kjaftæði? Ætlum við að hætta að kenna hana líka?" spurði Ásmundur.

„Þetta er nú langsótt allt hjá þér," svaraði Líf.

Hér að ofan má hlusta á deilur Lífar og Ásmundar og hér að neðan má sjá umræður um þáttinn á Facebook-síðu Lífar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×