Erlent

Öryggisráð SÞ kallað saman vegna átaka á Gaza

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Hundruð sprengja skekja Gazasvæðið á hverri mínútu sem líður en átökin sem geisa þar eru þau allra verstu síðan í átta daga stríði Ísraels- og Palestínumanna árið 2012. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur því verið kallað saman og boðað hefur verið til fundar á morgun. Allir fimmtán meðlimir öryggisráðsins munu sækja fundinn en það voru sendiherrar arabaríkjanna sem óskuðu eftir fundinum.

Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, fordæmir árásirnar og biður forsætisráðherra Ísraels að virða alþjóðlegar skuldbindingar um vernd óbreyttra borgara en þau linnulausu átök sem geisa nú á Gazasvæðinu virðast ætla að stigmagnast frá degi til dags. Hann telur því nauðsynlegt að grípa inn í áður en átökin harðna enn frekar.  Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur hins vegar fyrirskipað Ísraelsher að efla árásirnar enn frekar og útilokar hann ekki að hertaka svæðið allt.

Á fimmta tug Palestínumanna, flestir þeirra óbreyttir borgarar, liggja nú í valnum eftir árásir Ísraelshers undanfarna daga og hundruð eru særðir. Sprengjum er varpað allan sólarhringinn og hefur nokkrum þeirra verið varpað á kjarnorkuver í Ísrael, sem staðsett er skammt frá Gazasvæðinu. Öll þeirra misstu hins vegar marks en vopn Palestínumanna eru talin heldur frumstæð og ná Ísraelsmenn að granda flestum loftskeytum sem þeir varpa hverju sinni. Loftskeyti þeirra hafa því ekki valdið neinu manntjóni.

Varað er við myndskeiðum sem fylgja þessari frétt.


Tengdar fréttir

Tugir liggja í valnum eftir loftárásir

Spennan heldur áfram að magnast á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna á Gazasvæðinu, en tuttugu og sjö liggja nú í valnum og yfir hundrað eru særðir eftir hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna í dag.

Ísraelar boða hertar árásir á Gaza

Að minnsta kosti 35 hafa fallið í árásum ísraelshers á Gaza undanfarna daga, þeirra á meðal konur og börn. Enginn hefur fallið í árásum Hamas á Ísrael.

Flytja hermenn að Gaza

Spenna hefur verið mikil í Ísrael og Palestínu eftir morð þriggja ísraelskra pilta og 17 ára drengs frá Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×