Viðskipti innlent

Heyrði fyrst af milljarða millifærslunni í fréttum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hannes Smárason og Einar Sigurðsson.
Hannes Smárason og Einar Sigurðsson. Vísir
Einar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá FL Group, segist fyrst hafa heyrt af milljarða millifærslu út af reikningi félagsins til Fons í fréttum. Þetta kom fram við skýrslutökur í fjárdráttarmáli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.



Hann kvaðst hafa komið að opnun og virkjun reikningsins sem peningarnir fóru inn og út af til Fons. Lykilskjal saksóknara í málinu er útfyllt umboð á þeim reikningi sem virðist sýna að Hannes Smárason hafi einn farið með.

Einar sagði að hans skilningur á umræddu skjali og tengdum skjölum að þau hafi snúið að opnun og virkjun reikningsins sem var hjá Kaupthing Bank Luxembourg.

Sjá einnig: „Ég kannast ekkert við þessi viðskipti”

Finnur Vilhjálmsson, lengst til hægri, sækir málið fyrir hönd embættis Sérstaks saksóknara. Myndin er tekin í morgun.Vísir/GVA
Um mikla fjármuni að ræða fyrir FL Group

Saksóknari spurði Einar hvort að umrædd upphæð sem fór út af reikningnum, 2,75 milljarðar, hafi verið há fjárhæð fyrir FL Group.

„Já, þetta eru auðvitað miklir fjármunir. Félagið var á þessum tíma í miklum fjárfestingum og hafði meðal annars keypt hluti í flugfélaginu EasyJet. Þá hafði einnig verið keyptur fjöldi flugvéla fyrir félagið,” svaraði Einar.

Í lok skýrslutökunnar spurði dómarinn Einar svo hvort honum verið kunnugt um að Hannes hafi látið framkvæma umrædda millifærslu. Einar neitaði því og kvaðst fyrst hafa heyrt af henni „ í fréttum og í umræðunni á eftir.”

Hannes Smárason er ákærður í málinu fyrir að fjárdrátt. Á hann að hafa látið færa 2,75 milljarða króna út af reikningi FL Group og inn á reikning Fons. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×