Enski boltinn

Gylfi: Ég elska ensku úrvalsdeildina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi er fjórði Íslendingurinn til þess að ganga til liðs við félagið.
Gylfi er fjórði Íslendingurinn til þess að ganga til liðs við félagið. Fréttablaðið/Stefán
Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur samið við enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspur. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en breskir fjölmiðlar telja það vera í kringum átta milljónir punda eða sem nemur 1,6 milljörðum íslenskra króna. Samningurinn er til fimm ára.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Gylfa Þórs í fjölmiðlum hérlendis sem erlendis. Óvissan hvort hann myndi ganga til liðs við fyrrum knattspyrnustjóra sinn hjá Swansea, Brendan Rodgers sem nýtekinn er við Liverpool, eða Tottenham, sem þar til á þriðjudag var knattspyrnustjóralaust, var mikil.

„Ég tók þann tíma sem ég þurfti og þó það hafi kannski verið mikill æsingur og eftirvænting í fjölmiðlum þá tók ég minn tíma í að taka rétta ákvörðun," segir Gylfi sem vill ekki ræða um áhuga Liverpool á sér í bili að ósk nýju vinnuveitendanna.

Tottenham gekk á þriðjudag frá samningi við nýjan knattspyrnustjóra, André Villas-Boas. Portúgalinn, sem var vikið úr starfi hjá Chelsea í upphafi mars, hefur rætt við Gylfa í gegnum síma.

„Hann sannfærði mig um að þetta væri frábært félag og ég hefði aldrei ákveðið mig fyrr en ljóst var hver yrði stjórinn," segir Gylfi en hann viðurkennir að hafa verið í viðræðum við Tottenham í töluverðan tíma.

„Ég spjallaði við stjórnina og klúbbinn til að byrja með en maður tekur ekki ákvörðun fyrr en maður heyrir frá stjóranum. Það er mjög mikilvægt að finna að stjórinn vilji fá mann," segir Gylfi en margur íslenskur knattspyrnumaðurinn hefur brennt sig á því að vera keyptur af stjórn félags en ekki knattspyrnustjóra þess.

Þýskaland aldrei í myndinniTæp tvö ár eru síðan Gylfi Þór gekk til liðs við þýska efstu deildarfélagið Hoffenheim. Hann hafði þá verið valinn leikmaður ársins hjá Reading í ensku b-deildinni en fjárhagsörðugleikar öðru fremur urðu til þess að Hafnfirðingurinn var seldur til þýska félagsins.

Eftir þokkalegt fyrsta tímabil lenti Gylfi í meiðslum og tækifærin voru af skornum skammti á fyrri hluta annars tímabilsins hjá þýska félaginu. Við tók lánstímabil hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann lék undir stjórn Brendans Rodgers sem hann hafði kynnst hjá Reading. Gylfi sló í gegn, var valinn leikmaður marsmánaðar í deildinni og ljóst var að hann vildi spila í Englandi.

„Eftir veruna hjá Reading var ég orðinn vanur Englandi og langaði alltaf aftur þangað. Ég elska úrvalsdeildina eins og flestir gera. Eftir að ég fór á lán til Swansea fann ég að enski boltinn hentaði mér betur. Ég tala tungumálið reiprennandi, skil allt og þetta er allt öðruvísi," segir Gylfi sem segist alltaf hafa langað aftur í enska boltann eftir veruna hjá Swansea sem hann kveður með söknuði.

„Auðvitað er leiðinlegt að fara frá Swansea enda átti ég frábæran tíma þar og félagið mjög skemmtilegt. Þetta er hins vegar næsta skrefið á mínum ferli."

Risastórt félagGylfi segir um að ræða stórt skref fyrir sig sem knattspyrnumann. „Þetta er risastór klúbbur með mikinn metnað, verða í Evrópudeildinni á næsta ári og eru að stækka allt í kringum sig. Þeir eru að klára nýtt æfingasvæði og hugmyndir eru um að byggja nýjan völl svo það er mikill metnaður í klúbbnum og stjórninni," segir Gylfi sem verður fjórði Íslendingurinn til þess að spila fyrir félagið sem hefur aðsetur sitt á White Hart Lane í Norður-London. Guðni Bergsson spilaði með liðinu um árabil og síðar voru Emil Hallfreðsson og Eiður Smári Guðjohnsen á mála hjá félaginu.

Tottenham hafnaði í fjórða sæti á síðustu leiktíð sem hefði venjulega dugað til Meistaradeildarsætis. Sökum þess að erkifjendurnir í Chelsea unnu Meistaradeildina varð Tottenham að sætta sig við sæti í Evrópudeildinni.

„Það eru auðvitað miklar væntingar til næsta tímabils sem er fínt. Það setur smá pressu á mann sem er bara jákvæður hlutur. Markmiðið er að bæta það og komast í Meistaradeildina á næsta ári," segir Gylfi sem mætir til æfinga hjá Lundúnarliðinu á miðvikudaginn og hlakkar til.

„Það eru auðvitað frábærir leikmenn hjá liðinu eins og van ver Vaart, Adebayor, Modric og Gareth Bale. Ég gæti talið þá alla upp, þeir eru heimsþekktir og leikmenn í heimsklassa. Maður bætir sig með því að spila með þessum leikmönnum og æfa með þeim á hverjum degi."

Unga knattspyrnumenn dreymir um að ná langt í íþrótt sinni. Gylfi segir ákveðni og mikla vinnu hafa á endanum skilað sér þangað sem hann er kominn, til Tottenham.

„Ég áttaði mig á því mjög ungur að mig langaði í atvinnumennsku. Ég hef lagt mikið á mig. Maður þarf að æfa mikið aukalega, hugsa um líkamann og þá kemur þetta."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×