Erlent

Seg­ir að Kim muni gjald­a fyrir vopnasendingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un og Vladimír Pútín í Rússlandi árið 2019.
Kim Jong Un og Vladimír Pútín í Rússlandi árið 2019. AP/Alexander Zemlianichenko

Jake Sullivan, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, og ríkið allt muni gjalda fyrir mögulega vopnasendingar til Rússlands. Hann segir að sendi Kóreumenn vopn til Rússlands sem notuð yrði í Úkraínu, kæmi það niður á Norður-Kóreu á alþjóðasviðinu.

Þetta sagði Sullivan á blaðamannafundi í gærkvöldi. Bandaríkjamenn segja að Kim og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi átt í samskiptum undanfarið og að Kim sé mögulega á leið til Rússlands á fund við Pútín seinna í þessum mánuði.

Ferðin yrði fyrsta ferð Kim til annars ríkis í rúm fjögur ár.

Leiðtogarnir eru einnig sagðir hafa skipst á bréfum en fyrr í sumar fór Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, í ferðalag til Pyongyang.

Yfirvöld í Kreml hafa ekkert viljað segja um þessar yfirlýsingar Bandaríkjamanna.

Bandaríkjamenn segja að Rússar freisti þess að fá skotfæri fyrir stórskotalið og önnur hergögn frá Norður-Kóreu til að nota við innrásina í Úkraínu. Úkraínskir hermenn segja stórskotaliðsárásum Rússa hafa fækkað að undanförnu og þykir það til marks um að framleiðslan í Rússlandi sé ekki nægileg, miðað við notkun stórskotaliðs.

Stórskotalið skiptir sköpum í átökunum í Úkraínu. Sullivan sagði að refsiaðgerðir vegna innrásarinnar í Úkraínu hafi komið niður á hergagnaframleiðslu Rússa og því þurfi þeir að leita eftir aðstoð, samkvæmt frétt Reuters.

Kim er talinn vonast eftir aðstoð við þróun langdrægra eldflauga sem geta borið kjarnorkuvopn ríkisins. Norður-Kórea hefur um árabil unnið að þróun slíkra vopna og er það í trássi við ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Norður-Kórea hefur verið beitt umfangsmiklum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum vegna vopnaáætlana einræðisríkisins. 


Tengdar fréttir

Norður-Kóreu­menn sýndu „banda­ríska“ her­dróna

Norður-Kóreu­menn efndu til sér­stakrar her­sýningar í gær­kvöldi. Þar sýndu þeir nýjan búnað og voru þar í fyrir­rúmi nýir her­drónar sem taldir eru keim­líkir banda­rískum drónum, að því er fram kemur í um­fjöllun Guar­dian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×