Erlent

Trump fyrsti ­for­seti Bandaríkjanna sem fer yfir landa­mærin til Norður-Kóreu

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittust í dag á hlutlausu landamærasvæði Kóreuríkjanna, sem kallað er á ensku Demilitarized Zone eða DMZ, og skilur norður- og suðurhluta Kóreu að. BBC greinir frá.

Fundur leiðtoganna er ekki sá fyrsti en þeir hafa áður fundað í Singapúr í júnímánuði árið 2018 og rúmlega hálfu ári seinna í Hanoi í Víetnam í febrúar á þessu ári.

Nú hittast þeir á heimaslóðum Kim Jong-un og fóru þeir stuttlega yfir landamæri Norður-Kóreu. Með því varð Donald Trump fyrsti Bandaríkjaforsetinn til þess að fara yfir landamærin til Norður-Kóreu eftir að hafa heimsótt landamærasvæðið. Fjórir aðrir forsetar hafa þó heimsótt landamærasvæðið, þeir Barack Obama, George W. Bush, Bill Clinton og Ronald Reagan.





Ekki er vitað hvert efni fundar þeirra verður en síðasta fundi þeirra í febrúar var óvænt slitið og varð ekkert af fyrirhuguðum sameiginlegum blaðamannafundi sem til stóð að halda að fundinum loknum. Sagði Trump fundinn þó hafa verið árangursríkan en þeir hafi sammælst um að „það væri ekki gott að undirrita eitthvað“ á þeim tímapunkti.

Spekingar segja fundinn gefa vonir um alvöru áframhaldandi viðræður ríkjanna um kjarnorkuafvopnun á meðan aðrir afskrifa hann sem pólitískt leikhús. Eitt er þó víst að Bandaríkjaforseti fékk ósk sína um að taka í höndina á leiðtoganum á landamærasvæðinu uppfyllta.


Tengdar fréttir

Trump heldur að Kim valdi sér ekki vonbrigðum

Fréttir hafa borist af því að Norður-Kórea byggi aftur upp eldflaugastöð sína. Trump Bandaríkjaforseti segist verða fyrir vonbrigðum með Kim Jong-un reynist það rétt en að hann trúi ekki að það gerist.

Kenna Bandaríkjunum um og skamma Japana fyrir afskipti

Norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar segja að Bandaríkjunum sé almennt kennt um árangursleysi í leiðtogaviðræðum. Segja Japana reyna að spilla viðræðum. Þeir séu með svört hjörtu og eins og dvergar sem hanga í skottinu á Bandaríkjamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×