Erlent

Kennir múslimum um árásina í Nýja-Sjálandi: „Þó að múslimar hafi í dag verið fórnarlömb þá eru þeir venjulega gerendur“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fraser Anning, þingmaður.
Fraser Anning, þingmaður.
Ástralski þingmaðurinn Fraser Anning segir ástæðu hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch í Nýja-Sjálandi í nótt, þar sem 49 týndu lífi sínu, mega rekja til „innflytjendastefnu sem gerði öfgamúslimum kleift að flytja til Nýja-Sjálands til að byrja með.“ Þetta segir þingmaðurinn í yfirlýsingu þar sem hann segir íslamska trú vera „ofbeldisfulla hugmyndafræði sjöttu aldar harðstjóra í dulargervi trúarleiðtoga.“ Yfirlýsingin hefur vakið hörð viðbrögð ýmissa stjórnmálamanna, innan Ástralíu sem utan.

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir morð eftir að í það minnsta einn árásarmaður skaut að minnsta kosti 49 manns til bana og særði hátt í fimmtíu til viðbótar í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í dag. Föstudagsbænir voru í gangi í moskunum.

Anning, sem situr í öldungadeild ástralska þingsins sem óháður þingmaður fyrir Queensland-ríki, byrjar yfirlýsinguna á því að fordæma gjörðir byssumannsins sem átti í hlut og segist algerlega mótfallinn hvers konar ofbeldi í sínu samfélagi. Fljótt kveður þó við heldur myrkari tón í yfirlýsingunni.

„Hins vegar, þó að aldrei sé hægt að réttlæta ofbeldisfullar aðgerðir sjálfskipaðra varða laganna, þá dregur þetta upp skýra mynd af vaxandi ótta í samfélagi okkar, bæði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, við stigvaxandi návist Múslima.“

Þingmaðurinn gefur lítið fyrir útskýringar „vinstri-stjórnmálamanna,“ eins og hann kemst sjálfur að orði, um að rekja megi ástæður árásarinnar til byssulöggjafar í landinu eða þeirra sem aðhyllist þjóðernishyggju. Slíkar skýringar séu í raun „klisjukennt kjaftæði.“

„Hin raunverulega ástæða blóðsúthellinga á götum Nýja-Sjálands í dag er innflytjendastefna sem gerði öfgamúslimum kleift að flytja til Nýja-Sjálands til að byrja með,“ segir í yfirlýsingunni, sem vakið hefur hörð viðbrögð.

„Höfum eitt á hreinu, þó að múslimar hafi í dag verið fórnarlömb, þá eru þeir venjulega gerendurnir. Um allan heim drepa múslimar fólk í stórum stíl, í nafni trúar sinnar.“

Hann segir þá Íslam vera „ofbeldisfulla hugmyndafræði sjöttu aldar harðstjóra í dulargervi trúarleiðtoga.“

Þingmaðurinn segir sannleikann vera þann að Íslam sé ólíkt öllum öðrum trúarbrögðum og leggur þessi næst fjölmennustu trúarbrögð heims að jöfnu við fasisma. Hann segir jafnframt að þó að „fylgjendur þessarar villimannslegu trúar hafi ekki verið morðingjar í þessu tilfelli, þá séu þeir ekki saklausir.“

Anning lýkur yfirlýsingunni með því að vitna í Nýja Testament Biblíunnar.

„Eins og stendur í Matteusarguðspjalli 26:52, „allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla,“ og þeir sem aðhyllast ofbeldisfull trúarbrögð sem kallar eftir morðum á okkur [öðrum en múslimum] geta ekki látið sér bregða um of þegar einhver tekur þá á orðinu og svarar í sömu mynt.“

Hér má lesa yfirlýsinguna.

Hörð viðbrögð úr ýmsum áttum

Viðbrögð við yfirlýsingu þingmannsins hafa ekki látið á sér standa og hefur hann mátt sæta harðri gagnrýni úr ýmsum áttum. Meðal þeirra sem lýst hafa vanþóknun sinni á orðum Anning er Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.

„Ummæli þingmannsins Fraser Anning þar sem hann kennir innflytjendastefnu um grimmilega árás ofbeldisfulls, öfga-hægri hryðjuverkamanns í Nýja-Sjálandi eru ógeðsleg. Slíkar skoðanir eiga ekki rétt á sér í Ástralíu, hvað þá á ástralska þinginu,“ tísti forsætisráðherrann.





Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid David, var einnig harðorður í garð þingmannsins.

„Á tímum sorgar og þegar hugleiðingar er þörf þá hellir þessi ástralski þingmaður olíu á eld ofbeldis og öfgahyggju,“ segir Sajid, sem sjálfur er múslimi, í tísti.

„Ástralir munu skammast sín gríðarlega fyrir þennan fordómafulla mann. Hann talar á engan hátt fyrir hönd áströlsku vina okkar.“





Malcolm Turnbull, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu sagði þá ummæli Anning vera fyrirlitleg.

„Hann er svívirðing við ástralska þingið og, það sem verra er, með því að dreifa hatri og snúa Áströlum hvorum gegn öðrum, gerir hann nákvæmlega það sem hryðjuverkamennirnir vilja.“




Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×