Innlent

Afhentu undirskriftir gegn R-leið um Reykhólahrepp

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykhólum. Vestfjarðavegur færi um hlaðið verði R-leið valin með brú yfir mynni Þorskafjarðar.
Frá Reykhólum. Vestfjarðavegur færi um hlaðið verði R-leið valin með brú yfir mynni Þorskafjarðar. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sveitarstjóra Reykhólahrepps var í morgun afhentur undirskriftalisti 95 einstaklinga þar sem mótmælt er að svokölluð R-leið verði valin fyrir framtíðarvegstæði Vestfjarðavegar. Aðstandendur undirskriftanna telja að meirihluti íbúa hreppsins sé andvígur R-leiðinni. Fjallað var um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar. 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps stefnir að því að ákveða á fundi næstkomandi miðvikudag hvort hún hafni ákvörðun síðustu hreppsnefndar um að setja ÞH-leið um Teigsskóg inn í aðalskipulag en velja í staðinn R-leiðina, eða Reykhólaleið, en hún þýddi stórbrú yfir Þorskafjörð, auk þess sem Vestfjarðavegur myndi þá liggja um hlaðið á Reykhólum og um Barmahlíð.

Hér má sjá leiðirnar tvær sem nú er tekist á um fyrir framtíðarlegu Vestfjarðavegar. Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Leið R færi um Reykhóla.Grafík/Hlynur Magnússon.
Í morgun var Tryggva Harðarsyni, sveitarstjóra Reykhólahrepps, afhentur listi með 95 undirskriftum þar sem mótmælt er þessum áformum. Textinn er svohljóðandi: 

„Við ábúendur, íbúar og aðrir sem málið varðar viljum mótmæla því að svokölluð R leið verði valin sem hluti af stofnvegakerfi fyrir sunnanverða Vestfirði með tilheyrandi vegalagningu út Reykjanesið og stóraukinni umferð út Barmahlíðina.“ 

Frá Reykhólasveitarvegi í Barmahlíð. Vegagerðin telur hann ekki hæfan til að taka við þeirri umferðaraukningu sem fylgdi því ef hann yrði hluti Vestfjarðavegar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Kristján Þór Ebeneserson, bóndi á Stað, einn þeirra sem stóð að undirskriftasöfnuninni, sagði í samtali við Bæjarins besta að hann teldi að meirihluti væri fyrir því í hreppnum að mótmæla R-leiðinni. 

Kristján Þór Ebeneserson og Rebekka Eiríksdóttir, bændur á Stað í Reykhólasveit, eru í hópi þeirra sem leggjast gegn R-leið.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Í vestfirska fréttamiðlinum segir að af þessum 95, sem skrifuðu undir mótmælin, séu 2/3 með lögheimili í hreppnum og 1/3 utan hans, en það séu fasteigna- eða jarðeigendur eða einstaklingar sem reka fyrirtæki í hreppnum. 

Til samanburðar hafi 52 mælt með R-leiðinni í fyrravor á undirskriftalista sem þá kom fram. 

Íbúar í Reykhólahreppi voru 259 í byrjun ársins, þar af tæplega 200 á kjörskrá, að því er segir í BB.


Tengdar fréttir

R-leið um Reyk­hóla féll á um­ferðar­öryggis­mati

Svokölluð R-leið, með stórbrú þvert yfir Þorskafjörð, sem sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur stefnt að, féll á nýju umferðaröryggismati og þyrfti fjögurra milljarða króna kostnaðarauka til að hún teldist hæf til að bera Vestfjarðaumferðina.

Oddviti segir Vegagerðina hafa fengið rauða spjaldið

Oddviti Reykhólahrepps segir Vegagerðina sjálfa falla á umferðaröryggisprófi. Tilefnið er sú niðurstaða Vegagerðarinnar að svokölluð R-leið um Reykhóla standist ekki umferðaröryggismat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×