Erlent

Afríkusambandið segir allt benda til valdaráns í Simbabve

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sibusiso Moyo flutti þjóðinni ávarp í nótt.
Sibusiso Moyo flutti þjóðinni ávarp í nótt. Skjáskot
Afríkusambandið segir að yfirtaka hersins á völdum í Simbabve virðist vera valdarán.

Herinn hefur neitað að um valdarán sé að ræða og segir að Robert Mugabe, forseti Simbabve frá árinu 1980, sé óhultur og að herinn ætli einungis að herja á glæpamenn.

Alpha Conde, forseti Gíneu og formaður Afríkusambandsins, segir sambandið krefjast þess að horfið verði til hins gamla stjórnarfars hið snarasta.

Hann segir augljóst að simbabveskir hermenn hafi reynt að taka völd í landinu. Afríkusambandið hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu og hefur undirstrikað stuðning sinn við stjórnvöld í landinu.

Mikil spenna hefur verið í landinu frá því að Mugabe rak í byrjun mánaðar varaforsetann og bandamann sinn til margra ára, Emmerson Mnangagwa, úr embætti. Talið er að hinn 93 ára Mugabe hafi með brottrekstri Mnangagwa reynt að greiða leið eiginkonu sinnar, hinnar 52 ára Grace Mugabe, þannig að hún gæti tekið við völdum í landinu síðar meir. Grace Mugabe hefur nú flúið land.

Herinn í Simbabve tók í nótt yfir ríkisfjölmiðil landsins og hafa heyrst skothljóð og sprengingar í höfuðborginni Harare. Hershöfðingi birtist á skjám Simbabvemanna þar sem hann fullyrti að valdarán standi ekki yfir og að forsetinn og fjölskylda hans væri örugg.


Tengdar fréttir

Segja yfirtökuna ekki vera valdarán

Her Zimbabve segir að þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir ríkisútvarp landsins sé ekki um valdaránstilraun að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×