Erlent

Fölnun kóralrifja gæti verið að ljúka í bili

Kjartan Kjartansson skrifar
Verulegar skemmdir hafa orðið á kóralrifjum jarðarinnar í óvenjulegum hlýindum í höfunum síðustu árin.
Verulegar skemmdir hafa orðið á kóralrifjum jarðarinnar í óvenjulegum hlýindum í höfunum síðustu árin. Vísir/EPA
Hitabylgju í Indlandshafi sem hefur átt þátt í hnattrænni fölnun og dauða kórala undanfarin þrjú ár virðist vera að ljúka. Bandaríska haf- og loftslagsstofnunin (NOAA) segir að merki sé um að fölnunarviðburðinum sé að ljúka.

Fölnunarviðburðurinn hófst þegar höf víða um jörðina hlýnuðu mikið vegna El niño-veðurfyrirbærisins sem hófst árið 2015 og áframhaldandi hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. NOAA lýsti þá yfir hnattrænum fölnunarviðburði í aðeins þriðja skipti frá upphafi.

Washington Post segir að um 70% allra kóralrifja á jörðinni hafi orðið fyrir barðinu á fölnun síðustu árin. Vísindamenn telji að fölnunarviðburðurinn nú sé hugsanlega sá stærsti sem sögur fara af.

Nú gera spár NOAA ráð fyrir að hlýindunum í Indlandshafi sé að ljúka. Atlants- og Kyrrahafið eru engu að síður enn óvenjulega hlý. Það hefur slæmar afleiðingar fyrir Kóralrifið mikla við Ástralíu og kórala við strendur Bandaríkjanna og í Karíbahafi.

Gríðarlega mikilvægir vistkerfum í hafinu

Kóralar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir langavarandi sveiflu í hitastigi. Við óvenjuleg hlýindi eins og þau sem hafa verið viðvarandi síðustu árin losa þeir sig við þörunga sem lifa í sambýli við þá og fölna þannig.

Standi það ástand yfir lengi geta kóralarnir drepist. Getur það tekið kóralrif marga áratugi að jafna sig á slíkum viðburðum. Kóralrif eins og Kóralrifið mikla eru gríðarlega mikilvæg vistkerfum í hafinu en fjöldi annarra dýrategunda reiða sig á umhverfi kóralana.

Loftslagsbreytingarnar sem nú eiga sér stað á jörðinni gætu þýtt að meiriháttar fölnunarviðburðir verði tíðari í framtíðinni með tilheyrandi afleiðingum fyrir kóralrifin og vistkerfi þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×