Erlent

Fyrsta fórnarlambið nafngreint

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einn af árásarmönnunum.
Einn af árásarmönnunum. Vísir
Fjölskylda fórnarlambs í hryðjuverkaárásinni í London í gær hefur sent frá sér yfirlýsingu. Í henni er fyrsta fórnarlamb árásarinnar nafngreint.

Í yfirlýsinginni segir að fjölskyldan syrgi nú fráfall Chrissy Archibald sem flutt hafi til Evrópu frá Kanada til þess að vera með unnusta sínum.

Lögregluyfirvöld í London segja að árásarmennirnir þrír verði nafngreindir um leið og gengið hafi verið úr skugga um að slík nafnbirting muni ekki skaða rannsóknarhagsmuni.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglunni þar sem hann þakkar fjölmiðlum og almenningi fyrir að hafa ekki nafngreint mennina.

Breskum lögregluyfirvöldum er líklega enn í fersku minni þegar bandarískir fjölmiðlar nafngreindu árásarmanninn sem framdi hryðjuverkaárás í Manchester í maí, sólarhring eftir að árásin var framin.

Komu þær upplýsingar frá bandarískum embættismönnum í gegnum breskar öryggisstofnanir og voru yfirvöld í Bretlandi allt annað en kát með frjálslega upplýsingagjöf kollega sinna í Bandaríkjunum.

Lögregla segir að mikil vinna hafi verið lögð í að safna saman sönnunargögnum á vettvangi við London Bridge og Borough Market. Þar létu árásarmennirnir þrír til skarar skríða með þeim afleiðingum að sjö létust og um fimmtíu særðust, þar af 21 alvarlega.

Mennirnir þrír voru skotnir til bana af lögreglu aðeins átta mínútum eftir að fyrsta útkall barst.

Tólf hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á árásinni, fimm karlmenn og sjö konur. Húsleitir hafa verið gerðar víðs vegar um London.

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa í dag fjallað um árásarmennina þrjá, án þess þó að nafngreina þá. Á vef Guardian í dag kom meðal annars fram að lögregla hafði verið vöruð við einum þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×