Enski boltinn

Gylfa vantar bara eitt mark til að komast í þennan hóp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson er nú aðeins einu marki frá því að vera bæði með tíu mörk og tíu stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Þeim árangri hefur enginn Íslendingur náð á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni og jafnframt eru aðeins örfáir leikmenn sem hafa náð því í fimm bestu deildum Evrópu á þessari leiktíð.

Gylfi skoraði sitt níunda deildarmark á Old Trafford á dögunum en hann hefur einnig gefið tólf stoðsendingar á félaga sína í Swansea City liðinu.

Bara sex leikmenn í fimm bestu deildum Evrópu, Englandi, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi, hafa náð að komast í yfir tuginn í bæði markaskori og stoðsendingum.

Leikmennirnir sex eru þeir Luis Suarez og Neymar hjá Barcelona á Spáni, Alejandro Gomez hjá Atalanta á Ítalíu, Mohammed Salah hjá Roma á Ítalíu, Jose Callejon hjá Napoli á Ítalíu og Pablo Piatti hjá Espanyol á Spáni.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City eiga tvo leiki eftir af tímabilinu, útileik á móti Sunderland og heimaleik á móti West Bromwich Albion og þar verður fróðlegt að sjá hvort Gylfa takist að komast í þennan úrvalshóp á þessu tímabili og skrifa um leið enn á ný nýjan kafla í sögu íslensku knattspyrnunnar.



Tíu plús tíu klúbburinn 2016-17

Luis Suarez hjá Barcelona á Spáni

27 mörk og 12 stoðsendingar

Neymar hjá Barcelona á Spáni

10 mörk og 10 stoðsendingar

Alejandro Gomez hjá Atalanta á Ítalíu

14 mörk og 10 stoðsendingar

Mohammed Salah hjá Roma á Ítalíu

13 mörk og 10 stoðsendingar

Jose Callejon hjá Napoli á Ítalíu

11 mörk og 10 stoðsendingar

Pablo Piatti hjá Espanyol á Spáni

10 mörk og 10 stoðsendingar


Tengdar fréttir

Gylfi sló met Eiðs Smára á Old Trafford

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði ekki bara stórglæsilegt og mjög mikilvægt mark fyrir Swansea um síðustu helgi heldur bætti hann einnig með því fimmtán ára met Eiðs Smára Guðjohnsen. Gylfi hefur nú komið að 21 marki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Árlegt hjá Gylfa á Old Trafford

Aukaspyrnumark Gylfa Þórs Sigurðssonar tryggði Swansea City stig gegn Manchester United á Old Trafford. Hann hefur nú skorað á þessum velli þrjú ár í röð. Stigið sem Gylfi tryggði gæti reynst Svönunum dýrmætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×