Enski boltinn

"Wenger ætti að hjálpa til við velja eftirmann sinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger er undir mikilli pressu.
Wenger er undir mikilli pressu. vísir/getty
Rússneski milljarðamæringurinn Alisher Usmanov, næststærsti hluthafinn í Arsenal, segir að Arsene Wenger, knattspyrnustjóri liðsins, eigi að koma að því að velja eftirmann sinn.

Samningur Wengers rennur út í sumar en ekki liggur ljóst fyrir hvort Frakkinn verði áfram við stjórnvölinn hjá Arsenal. Wenger hefur stýrt Lundúnaliðinu frá árinu 1996 en enginn af stjórunum í ensku úrvalsdeildinni hefur stýrt liði jafn lengi og Wenger.

Frakkinn hefur verið undir mikilli pressu á undanförnum vikum en stuðningsmenn Arsenal hafa verið duglegir að mótmæla, m.a. undir slagorðinu Wenger Out. Usmanov hefur hins vegar enn mikla trú á Wenger, þrátt fyrir slakt gengi Arsenal að undanförnu.

„Það er ekki bara hægt að kenna þjálfaranum um það sem er að gerast,“ sagði Usmanov í samtali við Bloomberg. Hann segir að Wenger eigi að hafa eitthvað að segja um hver tekur við af honum.

„Það þarf að undirbúa arftakann og ég legg til að Wenger komi að því að velja hann. Sjálfur kem ég ekkert nálægt ákvörðunum hjá félaginu. Öll ábyrgðin á framtíð félagsins er hjá aðalhluthafanum [Stan Kroenke],“ bætti Usmanov við.

Arsenal, sem situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sækir Crystal Palace heim í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Alisher Usmanov á rúmlega 30% hlut í Arsenal.vísir/getty

Tengdar fréttir

Thierry Henry útlokar ekki að hann taki við af Wenger

Margir hafa séð Thierry Henry fyrir sér í knattspyrnustjórastól Arsenal í framtíðinni og orðrómurinn hefur vaxið í takt við óánægju stuðningsmanna með störf knattspyrnustjórans Arsene Wenger.

Wenger: Sanchez vill vera áfram

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að það sé ekki rétt að Alexis Sanchez vilji fara frá félaginu. Þvert á móti vilji hann vera áfram.

Jafnt í stórleiknum á Emirates

Arsenal og Manchester City skildu jöfn, 2-2, þegar liðin mættust á Emirates í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Wenger: Elska þetta félag

Eftir jafnteflið við Manchester City í dag lýsti Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, yfir ást sinni á félaginu og sagði að það kæmi fljótlega í ljós hvort hann verði áfram við stjórnvölinn hjá því eða ekki.

Vinalaus Wenger valtur eftir gagnslaust jafntefli

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er óðum að verða vinalaus meðal stuðningsmanna félagsins. Arsenal gerði í gær jafntefli við City sem gagnast liðinu afar takmarkað í baráttunni um Meistaradeildarsætið. Stjórnarmenn Arsenal þurfa hreinlega að fara spyrja sig hvort að einhver annar geti ekki gert betur en Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×