Erlent

Skynjarar greindu reyk áður en flugvélin brotlenti

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Reykur greindist inn á klósetti flugvélar EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið og með rafmagnslögnum hennar, skömmu áður en hún brotlenti. Þetta kemur fram í gögnum sem birt voru á síðunni Aviation Herald. Þá hefur CNN þetta einnig eftir heimildum, en það hefur ekki verið staðfest.

Gögnin eru sögð hafa borist í gegnum svokallað ACARS kerfi, sem heldur uppi samskiptum á milli tækja í flugvélum og tækja á jörðu niðri.

66 manns létu lífið í slysinu en ekki er vitað af hverju flugvélin sem var á leið frá París til Kaíró brotlenti. Yfirvöld í Egyptalandi segjast gruna að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Engin samtök hafa hins vegar lýst yfir ábyrgð.

Umfangsmikil leit stendur nú yfir og er helsta markmið hennar að finna flugrita flugvélarinnar. Lík og brak úr flugvélinni hefur fundist en ekki liggur fyrir hvar stærsti hluti braksins er.


Tengdar fréttir

Leita að flugritum vélarinnar

Leitarflokkar hafa fundið ferðatöskur, flugvélasæti og líkamsleifar einhverra farþega flugvélar EgyptAir sem hvarf í Miðjarðarhafið í gærnótt. Ekkert hefur fengist staðfest um ástæður þess að flugvélin fór í hafið en talið er nær öruggt að það hafi verið af mannavöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×