Innlent

Fordæma mótmælendur reið, sár og hneyksluð

Jakob Bjarnar skrifar
Margir á Facebook eru reiðir og sárir og bölva mótmælendum á Austurvelli í dag; í sand og ösku.
Margir á Facebook eru reiðir og sárir og bölva mótmælendum á Austurvelli í dag; í sand og ösku.
Ýmsir, ekki síst þeir sem eru yfirlýstir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hafa lýst yfir mikilli reiði og hneykslan á samfélagsmiðlum í dag vegna mótmælanna sem voru á Austurvelli; þá er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarávarp sitt.

Björn Ingi Hrafnsson útgefandi spyr hvort hinn „þögli meirihluti þjóðarinnar“ sé sammála sér þegar hann lýsir því yfir að honum þyki dapurlegt þegar „fámennur hópur skemmi fyrir með því að púa, berja í bumbur og búa til annan hávaða.“ Og biður fólk að „læka“ stöðufærslu sína á Facebook ef svo sé. Þegar þetta er ritað hafa tæplega 300 „lækað“, þeirra á meðal Brynjar Nielsson alþingismaður, Sigurður Már Jónsson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands og alnafni hans Dómkirkjuprestur. Er sem Björn Ingi hafi tekið að sér það hlutverk að leiða þann hóp sem er afar ósáttur við mótmælin. Og víst er að ýmsir eru reiðir mótmælendum.

Settu læk við þessa færslu

Færsla Björns Inga er svohljóðandi í heild sinni:

„Ég var eitt sinn formaður Þjóðhátíðarnefndar á Austurvelli og hér kemur tilraun til að rýna í þjóðarsálina. Mér finnst dapurlegt að forseti Íslands geti ekki lagt blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, forsætisráðherra flutt hátíðarávarp, fjallkonan farið með ljóð og tónlistarfólk flutt þjóðsönginn á sjálfan 17. júní án þess að fámennur hópur skemmi fyrir með því að púa, berja í bumbur og búa til annan hávaða. Allir hafa rétt til að mótmæla, en það er samt staður og stund fyrir allt. Ætli hinn þögli meirihluti þjóðarinnar sé sammála mér? Ert þú sammála mér? Settu þá læk við þessa færslu. Og deildu henni jafnvel. Og fólk má segja skoðun sína hér að neðan. En engan dónaskap samt, við erum í sparifötunum á þessum degi.“

Svívirtur þjóðhátíðardagur

Annar sem ekki er sáttur við mótmælin er prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann er skorinortur á Facebook: „Hin svokölluðu mótmæli á þjóðhátíðardaginn mælast víða illa fyrir, enda eru þau afar ósmekkleg.“

Fjölmiðlamaðurinn Hallur Hallsson er dapur og reiður: „Sorgardagur Samfóista & Vgista;) á einum og sama deginum svívirtu þeir 17. júní, Jón Sigurðsson, fjallkonuna, þjóðsönginn, forsetann, fánann og þjóðina ... Hvenær er nóg nóg?“

Hneykslanleg truflun

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra efast um tölur yfir fjölda mótmælenda, sem tíundaðar eru á mbl.is: „Nei mbl.is...það er sannarlega ekki rétt frá sagt að á milli 2500 og 3000 manns hafi sótt mótmælin á Austurvelli í morgun. Þarna mætti fólk, eins og það hefur gert í áratugi, til þess að fagna þjóðhátíðardegi Íslands og sýna landi sínu og þjóð virðingu. Það var lítill en hávær hópur sem áleit þetta stað og stund fyrir háreisti og pólitík.“

Jón Valur Jensson guðfræðingur og bloggari er reiður og hneykslaður: „Hneykslanleg truflun á þjóðhátíð Íslendinga afhjúpar enn eitt dæmi um þá óskammfeilni róttæklinga að láta tilganginn helga meðalið; en í raun eru þeir ekki með sjálfstæði í mótmælum, heldur eru þeir meiri brúður í brúðuleikhúsi auðkýfingsins Jóns Ásgeirs og vinnusvikara á Fréttastofu Rúv en þeir gera sér sjálfir grein fyrir. ––Ég óska öllum til hamingju með þjóðhátíðardaginn og sjálfstæði Íslands.“

Fjandmenn þjóðarinnar

Og enn einn sem nefndur er til sögunnar er sannur aðdáandi forsætisráðherra, Baldur Hermannsson, fyrrverandi framhaldsskólakennari og hann sendir svohljóðandi skilaboð til vina sinna á Facebook:

„Skínandi ávarp hjá okkar unga og glæsilega þjóðarleiðtoga. Sigmundur Davíð er kletturinn í hafinu, á honum brotnar hafaldan háa, aldrei mun líða mér úr minni hve stilltur hann var, stilltur sterkur og óbifanlegur undir háreysti skrílsins sem gerði sitt ítrasta til þess að eyðileggja þjóðhátíðardaginn ... en tókst þó ekki.

Og ógleymanlegur verður mér einnig hinn fagri söngur yngismeyjanna sem ekki létu skrílslætin slá sig út af laginu, þótt tæpt væri það á stundum.

En íslenska þjóðin er betur sett eftir en áður: nú vitum við hvar fjandmenn þjóðarinnar halda sig. “

Ég var eitt sinn formaður Þjóðhátíðarnefndar á Austurvelli og hér kemur tilraun til að rýna í þjóðarsálina. Mér finnst...

Posted by Björn Ingi Hrafnsson on 17. júní 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×