Viðskipti innlent

Erlendir miðlar minna á að toppar bankanna á Íslandi séu sakfelldir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurjón þarf að óbreyttu að sitja inni í tæpa þrjá mánuði.
Sigurjón þarf að óbreyttu að sitja inni í tæpa þrjá mánuði. Vísir
BBC og Reuters eru á meðal stórra erlendra miðla sem gera sér mat úr fangelsisdómi sem féll yfir Sigurjóni Árnasyni og tveimur öðrum starfsmönnum Landsbankans í gær. Sigurjón var dæmdur í tólf mánaða fangelsi en níu mánuðir dómsins eru skilorðsbundnir. Var hann fundinn sekur um markaðsmisnotkun á fimm daga tímabili rétt fyrir hrun.

Sigurjón segist undrandi á dómnum í samtali við Reuters líkt og hann tjáði Vísi í gær. BBC minnir á að um þriðja íslenska bankastjórnandann sé að ræða sem fái fangelsisdóm fyrir gjarðir í aðdraganda falls bankanna haustið 2008.

Í frétt BBC kemur fram að ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hafi Ísland fellt dóma yfir æðstu mönnum fjármálastofnana sem áttu þátt í fjármálakreppunni sem reið yfir vestræna heiminn haustið 2008. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm í Al-Thani málinu og Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, var dæmdur í níu mánaða fangelsi í héraði í Vafningsmálinu. Lárus var hins vegar sýknaður í Hæstarétti.

Þá er minnt á að Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið fundinn sekur fyrir að hafa „af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni“ eins og fyrirskipað sé í stjórnarskrá.



Financial Times, New York Times og Daily Mail eru á meðal annarra miðla sem fjalla um málið.

Sigurjón ætlar að áfrýja dómi gærdagsins.Björn Þorvaldsson saksóknari telur hins vegar dóminn léttvægan.


Tengdar fréttir

Sigurjón dæmdur í tólf mánaða fangelsi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir,

Sigurjón áfrýjar dómnum

Sigurjón Árnason ætlar að áfrýja tólf mánaða fangelsisdómnum frá því í morgun.

Sýknaðir í Vafningsmálinu

Hæstiréttur hefur sýknað Lárus Welding og Guðmund Hjaltason í Vafningsmálinu svonefnda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×