Skoðun

Brotnar undirstöður

Margrét Unnarsdóttir skrifar
„Teachers make all other professions possible“ eða „Kennarar eru undirstaða allra starfsgreina“ er setning sem er búin að vera mér hugleikin undanfarna daga. Þekking nemenda á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er að miklu leyti undir klínískum kennurum komin. Klínísk kennsla einkennir m.a. nám á sviðinu og gerir nemendum kleift, að námi loknu, að starfa við það sem fræðilegt nám þeirra byggist á. Það má því segja að klínísk kennsla er undirstaða framtíðar íslensks heilbrigðiskerfis.

Nýlega gerði Sviðsráð heilbrigðisvísindasviðs SHÍ könnun á viðhorfum verknámsnemenda til Landspítalans og framtíðar að loknu námi. Niðurstöður sýna að 52% nemenda upplifa klíníska kennara sína ekki hafa nægan tíma til að sinna kennslu. Telja má að mikið vinnuálag og mannekla á Landspítalanum sé að birtast í upplifunum nemenda í klínísku námi þeirra. Klínískir kennarar á heilbrigðisvísindasviði eru einnig starfsmenn Landspítalans sem hafa þurft að þola ómældan fjárskort í gegnum árin. Fjárskort sem getur komið í veg fyrir að dýrmætur boðskapur þeirra komist til skila til nemenda.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá vinna kennarar hörðum höndum að því markmiði að útskrifa fært heilbrigðisstarfsólk, en nú er virkilega verið að þjarma að gæðum framtíðar heilbrigðisþjónustu okkar. Það er grátlegt þegar ekki næst að miðla mikilsmetinni reynslu og þekkingu. Og það er enn grátlegra að ástæðan fyrir því séu takmarkaðar fjárveitingar.

Aðstaða starfsmanna og nemenda á Landspítalanum hefur einnig áhrif á umgjörð klínískrar kennslu og gæði hennar. Einungis 15% nemenda eru sammála því að aðstaða nemenda á Landspítalanum sé við hæfi. Upplifun nemenda í verknámi á heilbrigðisvísindasviði skiptir gríðarlegu máli þar sem framtíðarsýn nemenda mótast á meðan á námi þeirra stendur. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sjá aðeins 17% nemenda Landspítalann sem sinn framtíðarvinnustað.

Framþróun er markmið samfélagsins. Háskóli Íslands og Landspítalinn eru stofnanir ríkisins sem þjóna að viðhalda undirstöðu okkar samfélags svo önnur starfsemi þess sé möguleg og framtíð verði sem farsælust. Það er því með ólíkindum að þessar tvær stofnanir hafa þurft að þola endalausan niðurskurð af völdum stjórnvalda. Suðupunktur niðurskurðar þessara stofnana mætist í námi nemenda á heilbrigðisvísindasviði HÍ sem ber þess greinilega merki.

Skammsýni og skyndilausnir í mennta- og heilbrigðismálum brjóta niður undirstöður samfélags okkar. Það er því ekki seinna vænna að átta sig á alvarleika málsins.

Þessi grein er hluti af Áfram í fremstu röð - 10 daga átaki um menntamál


Tengdar fréttir

Palli einn í heiminum

Einungis 17% heilbrigðisnemenda við Háskóla Íslands sem stunda verknám við Landspítalann geta hugsað sér Landspítalann sem sinn framtíðarvinnustað.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×