Skoðun

Katrín og Gunnar?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fyrr í vikunni birtist grein á Vísir.is eftir Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmann þar sem gerð var áhugaverð en um leið misheppnuð tilraun til þess að spyrða Katrínu Jakobsdóttur við Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi forsætisráðherra, sem tilheyrði að sögn Sævars ákveðinni valdaelítu sem hefði talið sig „hafa óskrifaðan rétt til að velja sér embætti og störf.“ Þær ásakanir í garð Katrínar missa hins vegar algerlega marks.

„Má nefna mann eins og Gunnar Thoroddsen sem virtist hafa geta valið hvar hann vildi vera, hvort sem það var háskólaprófessor, borgarstjóri, ráðherra eða hæstaréttardómari og virtist geta farið fram og til baka á milli starfa. Í dag á þetta ekki að virka svona. Það að Katrín telji sig hafa það brautargengi sem til þarf til að verða forseti finnst mér endurspegla ákveðinn hroka stjórnmálaelítu,“ segir þannig í greininni.

Mjög langur vegur er hins vegar frá því að Katrín hafi valið úr embættum og störfum heldur hefur hún einfaldlega hlotið það brautargengi sem hún hefur fengið með stuðningi kjósenda. Væntanlega tilheyra þá allir, sem náð hafa kjöri í lýðræðislegum kosningnum, áðurnefndri elítu að mati Sævars og hafa valið sér embætti og störf. Verði Katrín kjörin forseti verður það að sama skapi vegna stuðnings kjósenda.

Hefur skapað nýtt fordæmi

Katrín hefur þvert á móti skapað nýtt fordæmi með því að hafa ekki einungis sagt af sér sem forsætisráðherra og formaður VG heldur einnig sem þingmaður löngu áður en úrslit forsetakosninganna liggja fyrir. Katrín hefði getað setið áfram sem þingmaður og aðeins sagt af sér næði hún kjöri líkt og Ólafur Ragnar Grímsson og Ásgeir Ásgeirsson en kaus hins vegar að gera það strax í kjölfar þess að hún lýsti yfir framboði.

Væntanlega hafa þeir Ólafur Ragnar og Ásgeir viljað hafa vaðið fyrir neðan sig og getað þannig horfið aftur að þingmennskunni næðu þeir ekki kjöri. Katrín hefur hins vegar lagt allt undir og auk þess afsalað sér biðlaunum, sem hún á fullan rétt til, á meðan á kosningabaráttunni stendur. Hvernig þetta rímar við þá elítu sem Sævar vill meina að Katrín tilheyri ásamt Gunnari Thoroddsen er vægast sagt erfitt að átta sig á.

Hitt er svo annað mál að gagnrýni Sævars á miklu fremur við um þann frambjóðanda sem hann hefur sjálfur lýst yfir eindregnum stuðningi við, Baldur Þórhallsson, ef einhvern. Baldur er þannig háskólaprófessor líkt og Gunnar var meðal annars og mun væntanlega halda áfram í þeirri stöðu nái hann ekki kjöri og eins eftir að hann lætur af embætti forseta verði hann fyrir valinu. Sem sagt fara „fram og til baka á milli starfa.“

Hvað segir það um Baldur?

Fram koma enn fremur í grein Sævars aðdróttanir um það að Katrín gæti látið fyrrverandi samstarfsfélaga sína í stjórnmálunum hafa óeðlileg áhrif á störf sín sem forseti verði hún kjörin og vísar þar til ríkisstjórnarflokkanna. Aftur hittir Sævar Baldur miklu fremur fyrir með gagnrýni sinni en Baldur er þannig til að mynda fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar sem líklegt er talið að leiði næstu ríkisstjórn landsins.

Kosið verður næst til þings í síðasta lagi þarnæsta haust. Ýmsir telja þó að til þess gæti komið mun fyrr. Jafnvel síðar á þessu ári. Sitjandi ríkisstjórn á í öllu falli ekki langan tíma fyrir höndum en gangi það eftir að Samfylkingin fari fyrir næstu stjórn mun hún væntanlega sitja mun lengur. Er hægt á mælikvarða Sævars að gera ráð fyrir því að fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar veiti ríkisstjórn flokksins aðhald?

Meintar óvinsældir Katrínar og „gríðarleg óánægja“ með hana er einnig yrkisefni Sævars. Katrín hefur sagt að hún sé meðvituð um það að hún sé umdeild. Það er afleiðing þess að hafa staðið í stafni og þurft að taka margar erfiðar ákvarðanir. Hvenær hefur reynt með hliðstæðum hætti á Baldur? Þá nýtur Katrín meira fylgis en Baldur í flestum könnunum þrátt fyrir meintar óvinsældir hennar. Hvað segir það þá um hann?

Frjálst að skjóta sig í fótinn

Fleiri áhugaverðar tilraunir hafa verið gerðar að undanförnu til þess að reyna að koma höggi á forsetaframboð Katrínar en eiga það í flestum tilfellum sameiginlegt að hafa að sama skapi alfarið misst marks. Til að mynda meint valdasækni hennar fyrir þá sök að segja af sér valdamesta embætti landsins og bjóða sig fram í embætti sem hefur sáralítil völd. Þvert á móti er Katrín ljóslega að sækjast eftir miklu minni völdum.

Fullyrt hefur einnig verið að engin fordæmi séu fyrir því að sitjandi forsætisráðherra hafi farið í forsetaframboð í öðrum Evrópuríkjum þegar veruleikinn er sá að enginn skortur er á dæmum um það að háttsettir evrópskir ráðherrar, bæði forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og fjármálaráðherrar, hafi farið í forsetaframboð og þá gjarnan, ólíkt Katrínu, ekki sagt af sér ráðherraembættinu fyrr en þeir hafa náð kjöri.

Tilraunir sem þessar dæma sig vitanlega sjálfar enda ekki beinlínis til marks um það að málefnalegum rökum sé til að dreifa. Væri þeim fyrir að fara þyrfti eðli málsins samkvæmt ekki að grípa til slíkra óyndisúrræða. Vonandi verður kosningabaráttan eftirleiðis málefnalegri en framganga Sævars er til marks um þó honum og öðrum líkt þenkjandi einstaklingum sé vitanlega frjálst að halda áfram að skjóta sig í fótinn.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×