Viðskipti innlent

„Geta tæplega verið heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, ætlar að kalla fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fund nefndarinnar, til að fá svör við nokkrum spurningum er varðar sölu Arion banka á hlutum í Símanum, en bankinn valdi viðskiptavini og fjárfesta sem fengu að kaupa hlut í félaginu stuttu áður en að almennt útboð fór fram á félaginu. 

Fjárfestarnir sem handvaldir voru fengu hluti í Símanum á talsvert betra verði en í útboðinu.

„Þetta er ekkert flókið. Það sitja ekki allir fjárfestar við sama borð. Og það er sumum boðið að kaupa þetta á mun hagstæðara verði heldur en öðrum og munu hagnast sem því nemur og það er því eðlilegt að spyrja af hverju það er og á hvaða forsendum það er gert,“ segir Guðlaugur.

Íslenska ríkið á, í gegnum Bankasýsluna, á 13 prósenta hlut í Arion banka sem stóð fyrir sölunni. Guðlaugur segir að leið nefndarinnar til að kanna málið sé í gegnum Bankasýsluna.

„Þetta er auðvitað að hluta til banki í eigu ríkisins, þannig að þarna er um að ræða ríkiseigu, að hluta til,” segir hann.

En finnst þér viðskiptin eðlileg yfir höfuð, jafnvel þó að ríkið ætti ekki hlut að máli?



„Nei mér finnst það ekki. Ef þú spyrð um það hvernig við getum nálgast þetta, þá eiga að vera til eftirlitsstofnanir sem eiga að fylgjast með þessu,“ segir hann. „Menn hafa spurt sig, ekki bara út af því þarna sitja aðilar ekki aðilar við sama borð, og það er verið að velja ákveðna viðskiptavini og gera þeim kleift að hagnast með þessum hætti, sem geta tæplega verið heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir, þá eru líka menn að velta fyrir sér hvort þarna gæti verið um markaðsmisnotkun að ræða, það sé verið að tryggja og búa til verð á fjármálagjörningi.“

Guðlaugur vill að Fjármálaeftirlitið taki málið fyrir hjá sér. 

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að stjórn Kaupskila, félags sem heldur utan um 87 prósent hlut kröfuhafa Kaupþings í Arion banka, ætli einnig að skoða málið og að mögulega verði stjórn bankans krafin um svör um söluna á hlutum til valinna aðila.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×