Innlent

Verkfalli frestað til 22.maí: "Okkar fólk mætir til vinnu á morgun"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Samninganefndir flugvallastarfsmanna og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia funduðu í alla nótt án árangurs og var fundi slitið á sjöunda tímanum í morgun. Ótímabundið verkfall sem hefjast átti klukkan fjögur í nótt hefði náð til yfir 400 flugvallastarfsmanna og leggja átti niður tugi áætlunarflugferða með þúsundir farþega, strax á morgun. Allt flug til og frá landinu og innanlandsflug hefði lagst niður.

Fundahöld hófust aftur hjá ríkissáttasemjara um klukkan tvö í dag. Eftir því sem líða tók á daginn varð hljóðið í fundarmönnum léttara og klukkan rúmlega sex tilkynnti Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, að fyrirhugaðri vinnustöðvun hefði verið frestað til tuttugasta og annars maí næstkomandi.

„Vinnustöðvun hefur ekki verið aflýst en hluti af sátt er að henni verður frestað til 22.maí. Við höfum náð grunni að samkomulagi sem við munum byggja á og teljum okkur þess umbúin að fresta aðgerðum. Við höfum síðan rúman tíma til að kynna samninginn og greiða um hann atkvæði,“ sagði Kristján. „Okkar fólk mætir til vinnu á morgun eins og ekkert hafi ískorist og engar frekari aðgerðir eru fyrirhugaðar. Við höldum áfram að funda og vonandi klárum við samning í kvöld.“

Kristján vildi ekki ræða innihald nýs tilboðs en sagði að samningsaðilar þyrftu að gera málamiðlanir.

Flugmenn Icelandair hafa boðað til nokkurra verkfalla í maí og flugfreyjur hjá Wow vísuðu sínum kjaramálum til ríkissáttasemjara í dag. Það er þó ljóst að þeir sem hugðu á flugferðir á morgun, munu komast ferða sinna.


Tengdar fréttir

Flugmenn í verkfall

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur boðað ótímabundið yfirvinnubann flugmanna Icelandair ehf. sem mun hefjast hinn 9. maí klukkan sex að morgni.

Klukkan tifar á allsherjarverkfall

Úrslitatilraun er nú gerð til að ná samningum við flugvallarstarfsmenn áður en ótímabundið verkfall þeirra hefst aðfararnótt miðvikudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×