Innlent

Þykir varla styrkja stöðu formannsins

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokkurinn Reykjavík
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokkurinn Reykjavík
Könnun sýnir mikinn stuðning við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í formannsembætti Sjálfstæðisflokkins. Hún stefnir þó á varaformannsembættið. Stjórnmálafræðingur segir stöðu Bjarna Benediktssonar varla hafa styrkst við þessa könnun.

Hver er staða Bjarna Benediktssonar fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins?

Flest bendir til þess að Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir muni standa í fylkingarbrjósti Sjálfstæðisflokksins í komandi alþingiskosningum, en Hanna Birna tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram til embættis varaformanns flokksins á landsfundinum sem verður haldinn í lok mánaðarins.

Tilkynning Hönnu Birnu kom sama dag og fjölmiðlar greindu frá skoðanakönnun sem sýndi að rúm 80 prósent svarenda telja Hönnu Birnu sterkari formann fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en tæp tíu prósent nefndu Bjarna. Capacent Gallup gerði könnunina fyrir félagsskap að nafni Samtök áhugafólks um stjórnmál, en ekki er vitað hverjir standa að honum.

Sérstaka athygli vekur að þrír af hverjum fjórum svarendum sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eru á því að Hanna Birna yrði sterkari formaður fyrir flokkinn en sautján prósent þeirra töldu Bjarna verða sterkari formann.

Bjarni og Hanna Birna buðu sig bæði fram til formanns á landsfundi flokksins haustið 2011, og hlaut Bjarni þar um 55 prósent atkvæða.

Eftir sterka útkomu í prófkjöri flokksins í haust, þar sem hún hlaut örugga kosningu í leiðtogasæti í Reykjavík fyrir þingkosningarnar, tók Hanna Birna nokkuð afdráttarlaust fyrir að hún myndi bjóða sig fram til formanns á næsta landsfundi.

Staða Bjarna þykir þó hafa veikst eftir niðurstöðu Icesave-málsins, sökum stuðnings hans við Buchheit-samninginn í þinginu, en ólíklegt má þó telja úr þessu að hann fái mótframboð sem ógni stöðu hans.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að könnunin sé varla til þess að styrkja stöðu Bjarna í formannsstóli.

„Eðlilegast er að lesa þessa könnun sem tilraun einhvers hóps til að stefna Hönnu Birnu í formannsframboð. Könnuninni er beint gegn Bjarna að einhverju leyti og styrkir allavega ekki hans stöðu. Þarna hljóta að vera að verki einhverjir sem vilja sjá formannsskipti, en Hanna Birna hefur nú, með framboði til varaformanns, stöðvað þá atburðarás og umræðu sem hefði annars getað farið af stað.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×