Innlent

Svona útveguðu ræningjarnir sér flóttabíl: Óku um með brauð og berlínarbollur aftur í

Atli Ísleifsson skrifar
Jarek Kuczynski, eigandi Hverafoldar bakarís, segir að flóttabílnum hafi verið stolið í Hafnarfirði í morgun.
Jarek Kuczynski, eigandi Hverafoldar bakarís, segir að flóttabílnum hafi verið stolið í Hafnarfirði í morgun.
„Þeir hafa þá ekið um með brauð og berlínarbollur aftur í,“ segir Jarek Kuczynski, eigandi Hverafoldar bakarís, en sendibíll fyrirtækisins var notaður sem flóttabíll í bankaráninu í Landsbankanum í Borgartúni í morgun.

Jarek segir að bílnum hafi verið stolið um klukkan hálf ellefu í Hafnarfirði í morgun. „Ég var að afhenda vörur í verslunina Mini Market á Reykjavíkurvegi og gerði þau mistök að skilja lyklana eftir í bílnum. Ég fór inn með vörurnar, var inni í þrjár eða fjórar mínútur og þegar ég kom aftur út var bíllinn horfinn.“

Bíll Hverafoldar bakarís fannst í Barmahlíð í Reykjavík.Vísir/Pjetur
Jarek segir að hann hafi svo hringt í lögreglu þar sem hann tilkynnti að bílnum hafi verið stolið. „Það var smá vesen því veskið, lyklarnir og síminn minn var í bílnum. Ég lét loka öllum kortum og svo framvegis.“

Jarek segist svo hafa hringt í lögregluna nokkru síðar til að spyrjast fyrir um bílinn þar sem hann hafi fengið þær fréttir að bíllinn hafi verið notaður í bankaráni og að hann hafi fundist í Barmahlíð í Reykjavík.

Hann segist hafa verið mikið brugðið eftir að hafa fengið fréttirnar, þó að hann sé feginn að bíllinn hafi fundist.

Lögregla mun hafa bílinn í sinni vörslu vegna rannsóknar málsins, en Jarek vonast til að geta fengið hann aftur á morgun. Hann hafi þó tryggt að brauð muni berast viðskiptavinum á morgun. Hann segist enn ekki hafa fengið upplýsingar um hvort veski hans, sími, jakki og lyklar hafi fundist í bílnum.

Jarek segist hafa lært það í dag að skilja bílinn aldrei eftir í gangi, þó að hann slökkvi nær alltaf á bílnum. „Ég hvet líka annað fólk til að hafa þetta í huga,“ segir Jarek að lokum.


Tengdar fréttir

Bíllinn úr bankaráninu fannst í Barmahlíð

Hvítur sendiferðabíll sem tveir menn notuðu við vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni fannst yfirgefinn í Barmahlíð upp úr klukkan hálf þrjú í dag.

Bankarán í Borgartúni

Tveir menn frömdu vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni skömmu fyrir klukkan hálftvö í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×