Innlent

Sveitastjórnin vill ekki kæra Björgvin

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Egill Sigurðsson, oddviti sveitastjórnarinnar, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi sveitarstjóri.
Egill Sigurðsson, oddviti sveitastjórnarinnar, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi sveitarstjóri. Vísir
Sveitastjórn Ásahrepps ætlar að reyna að ljúka málum gagnvart Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi sveitarstjóra, án þess að málið verði kært til lögreglu. Þetta ákvað sveitastjórnin á fundi með lögfræðingum sínum í kvöld. RÚV greinir frá þessu.

Í samtali við RÚV segir Egill Sigurðsson, oddviti sveitastjórnarinnar, að eftir eigi að reikna einstaka liði en að stefnt sé að því að ljúka málinu með því að undirrita samning við Björgvin. „Ég væri mjög ánægður með það ef það væri hægt,“ segir hann.

Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að Björgvini hefði verið vikið úr starfi eftir að hann notaði fjármuni sveitarfélagsins í sína eigin þágu, án leyfis. Hann greiddi sjálfum sér 250 þúsund krónur í laun fyrirfram að eigin frumkvæði og notaði greiðslukort Ásahrepps til matarkaupa og kaupa á myndavél.

Greint hafði verið frá því að Björgvin yrði ritstjóri Herðubreiðar en hætt var við ráðninguna eftir að Fréttablaðið greindi frá ástæðum starfsloka hans hjá Ásahreppi. Í viðtali við Herðubreið sagði hann að rekja mætti hluta athafna sinna til dómgreindarbrests sem stafaði af viðvarandi og óhóflegri áfengisneyslu. Hann hefur skráð sig í áfengismeðferð sem hefst á morgun.

Björgvin var ráðinn sveitarstjóri Ásahrepps í júlí í fyrra og var starfshlutfall hans sjötíu prósent. Hann lét af störfum í kjölfarið að upp komst um málið.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi ráðherra rekinn vegna fjárdráttar í Ásahreppi

Björgvin G. Sigurðsson dró sér fé í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps. "Fyrst með litlum greiðslum hér og þar, en vatt upp á sig líkt og snjóbolti sem rúllar niður brekku,“ segir Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×