Erlent

Slitu samskiptum við Philae

Könnunarfarið hefur ekki verið virkt í heilt ár.

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd sem Philae tók af yfirborði halastjörnunnar 67P í nóvember 2014. Vísir/EPA
Starfsmenn Evrópsku geimferðastofnunarinnar, ESA, hafa nú slitið samskiptum við könnunarfarið Philae sem þýtur um geiminn á halastjörnu. Farið hafði ekki verið virkt í eitt ár, en ákvörðunin var tekin til að spara orku um borð í geimfarinu Rosetta, sem er á sporbraut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko.

Síðast náðist samband við Philae þann 9. júlí í fyrra. Rafhlöður farsins tæmdust og ekki gekk vel að hlaða þær aftur þar sem farið hafði lent á röngum stað og var í skugga frá sólu. Samskiptamöguleikanum hefur þó verið opinn ef ske kynni að rafhlöður Philae næðu hleðslu.

ESA hefur reynt að koma skilaboðum til Philae sem hefur ekki svarað þeim.

Philae er fyrsta farið sem lendir á halastjörnu og hefur þetta verkefni Evrópsku geimferðastofnunarinnar staðið yfir í rúm tólf ár. Geimfarinu Rosetta var skotið á loft 2. mars 2004.

Þar sem geimfarið Rosetta er nú mjög langt frá sólu reyndist nauðsynlegt að slökkva á samskiptabúnaði þess og Philae svo farið yrði ekki rafmagnslaust. Verkefni Rosettu lýkur í september þegar farinu verður brotlent á halastjörnunni.

Þó að verkefnið hafi ekki gengið eins og best var á kosið er ekki hægt að segja að það hafi misheppnast. Með rannsókninni vildu vísindamenn ESA reyna að varpa ljósi á marga leyndardóma. Jafnvel gæti rannsóknin svarað spurningum um uppruna vatns og jafnvel lífs á jörðinni.

Hér má sjá stuttmyndina Ambition sem framleidd var fyrir ESA um Rosettuverkefnið. Myndin var tekin upp á Íslandi.

ESA birtir reglulega myndir sem teknar eru úr Rosettu á Twitter sem sjá má hér. Hægt er að skoða þrívíddarteikningu af 67P hér á vef ESA.

AFP fréttaveitan hefur eftir Andreas Scuetz, frá Þýsku geimferðastofnuninni, DLR, að verkefnið hafi verið einstaklega heillandi og að það hafi heppnast.


Tengdar fréttir

Þegar við húkkuðum far með halastjörnu

Uppgötvanirnar voru margar á árinu og afrekin fjölbreytt. Vonbrigðin voru einnig til staðar. Á ýmsum sviðum tóku vísindamenn höndum saman, á öðrum tókust þeir á. 2014 var ár framfara en við sáum vísindamenn einnig gera það sem þeir gera svo vel, að horfast í augu við óvæntar breytur og vonbrigði. Hér er það helsta í vísindum á árinu

Halló jörð, heyrir þú í mér?

Könnunarfarið Philae hefur vaknað til lífsins eftir nokkurra mánaða dvala á halastjörnunni 67P. Farið er það fyrsta til að lenda á halastjörnu. Vonast er til að orka þess sé næg til að ljúka því verkefni sem því var ætlað.






×