Erlent

Síðasta tækifærið til að hafa samband við Philae mistókst

Síðast heyrðist til lendingarfarsins þann 9. júlí og nýjustu tilraunir virðast hafa mistekist.

Samúel Karl Ólason skrifar
Halastjarnan 67/P Churyumov þann 9. janúar. Mynd/ESA
Lendingarfarið Philae mun líklega aldrei aftur komast til lífsins á yfirborði halastjörnunnar 67P eða Churyumov-Gerasimenko. Vísindamenn Evrópsku geimferðastofnunarinnar, ESA, reyndu að senda farinu skilaboð á dögunum sem virðist ekki hafa tekist. Með því er verkefni sem hefur staðið yfir í meira en áratug líklega lokið.

Philae var varpað að yfirborði halastjörnunnar úr geimfarinu Rosetta í nóvember 2014. Mistök urðu við lendinguna og skoppaði farið á yfirborði halastjörnunnar. Farið staðnæmdist svo á stað þar sem lítið var um sólarljós og fönguðu rafhlöður þess ekki nægjanlegt sólarljós til að halda starfsemi farsins gangandi. Eftir einungis 60 klukkustundir varð farið rafmagnslaust.

Farið kveikti svo á sér aftur þann 14. júní í fyrra og sendi ýmis gögn til jarðarinnar.

Lofthelgismiðstöð Þýskalands, DLR, segir að tíminn sé að renna út og að síðast hafi samband náðst við lendingarfarið þann 9. júlí í fyrra. Með hverjum degi færist halastjarnan fjær sólinni og fer hitastig á yfirborðinu sífellt lækkandi. Í lok janúar verður orðið of kalt fyrir Philae til að starfa áfram.

Þá verður halastjarnan komin í rúmlega 300 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni og hitinn verður lægri en -51 gráða.

Vísindamenn sendu skipanir til farsins þann 10. janúar sem var ætlað að hrista ryk af sólarrafhlöðum Philae og stilla farinu betur upp til móts við sólu. Það virðist nú ekki hafa heppnast.

Philae er fyrsta geimfarið sem lendir á halastjörnu og hefur þetta verkefni Evrópsku geimferðastofnunarinnar staðið yfir í tæp tólf ár. Geimfarinu Rosetta var skotið á loft 2. mars 2004.

Sjá einnig: Ferðalag Rosettu og Philae til 67P - Tímalína og myndbönd

Þrátt fyrir að aðstæður verði ekki góðar fyrir Philae við lok janúar verður áfram kveikt á búnaðinum sem hefur verið notaður til samskipta við farið þar til í september. Mögulega gæti farið sent frekari skilaboð til jarðarinnar.

Þó að verkefnið hafi ekki gengið eins og best var á kosið er ekki hægt að segja að það hafi misheppnast. Með rannsókninni vildu vísindamenn ESA reyna að varpa ljósi á marga leyndardóma. Jafnvel gæti rannsóknin svarað spurningum um uppruna vatns og jafnvel lífs á jörðinni.

Flókin lífræn efnasambönd fundust á plánetunni. Alls fundust sextán efnasambönd úr kolefnum og nítrógeni. Þá kom í ljós að yfirbörð 67P er úr ís og þakið þunnu ryklagi.

Fundur slíkra efna á halastjörnu sem rekur rætur sínar allt til fæðingar sólkerfisins getur gefið vísindamönnum skýrari sína á uppruna efnis í alheiminum.

Samkvæmt Stjörnufræðivefnum eru halastjörnur frumstæðustu hnettir sólkerfisins og innihalda þær þau efni sem reikistjörnurnar urðu til úr fyrir um 4,6 milljörðum ára. Þá hafa þær, ólíkt reikisstjörnunum, ekki hitnað að ráði og því hafa efnin þar lítið breyst.

Hér má sjá myndir sem teknar eru af Rosetta geimfarinu af 67/P halastjörnunni.

Tengdar fréttir

Þegar við húkkuðum far með halastjörnu

Uppgötvanirnar voru margar á árinu og afrekin fjölbreytt. Vonbrigðin voru einnig til staðar. Á ýmsum sviðum tóku vísindamenn höndum saman, á öðrum tókust þeir á. 2014 var ár framfara en við sáum vísindamenn einnig gera það sem þeir gera svo vel, að horfast í augu við óvæntar breytur og vonbrigði. Hér er það helsta í vísindum á árinu

Reyna að lenda á halastjörnunni

Evrópska geimvísindastofnunin mun í dag gera tilraun til að koma könnunarfarinu Philae á yfirborð halastjörnu sem þýtur í gegnum geiminn á ofsahraða. Gervitunglið Rósetta hefur síðustu vikur fylgt halastjörnunni eftir og í dag á að reyna að lenda litlu könnunarfari úr tuttugu kílómetra hæð á yfirborðinu.

Halló jörð, heyrir þú í mér?

Könnunarfarið Philae hefur vaknað til lífsins eftir nokkurra mánaða dvala á halastjörnunni 67P. Farið er það fyrsta til að lenda á halastjörnu. Vonast er til að orka þess sé næg til að ljúka því verkefni sem því var ætlað.






×