Viðskipti innlent

Skuldir ríkissjóðs gætu lækkað um hátt í helming

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tekjur sem koma í ríkiskassann frá slitabúum föllnu bankanna við losun fjármagnshafta verða eyrnamerktar því að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Tekjur sem koma í ríkiskassann frá slitabúum föllnu bankanna við losun fjármagnshafta verða eyrnamerktar því að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Vísir/GVA
Vaxtagreiðslur vegna lána ríkissjóðs gætu lækkað um tugi milljarða króna á ári verði mögulegar tekjur af stöðugleikaskatti og stöðugleikagreiðslum slitabúum föllnu bankanna notaðar til að greiða niður skuldir.



Skuldum 1.450 milljarða

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti verði um 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar sem slitabúin geti nýtt sér uppfylli þau ákveðin skilyrði. Mest gæti ríkið fengið um 850 milljarðar króna.



Samkvæmt yfirliti frá Lánamálum ríkisins námu heildarskuldir ríkisins 1.477.438 milljónum króna. Í kynningu verkefnahóps um afnám hafta kom fram að fyrsta lánið sem greiða eigi niður sé 145 milljarða króna lán til Seðlabanka Íslands. Síðan verði fjármunirnir nýttir í að greiða niður önnur lán.



Eftir standa þá ógreiddar skuldir upp á tæplega 800 milljarða króna, sem er um tvisvar til þrisvar sinnum meira en skuldirnar voru fyrir hrun. Slík lækkun hefði veruleg áhrif á vaxtagreiðslur ríkisins á hverju ári en gert var ráð fyrir 82 milljarða vaxtakostnaði í fjárlögum ársins, sem er meira en öll framlög til málaflokka sem heyra undir innanríkisráðuneytið samanlagt.

Eyrnamerkt í skuldaniðurgreiðslu

Þær tekjur sem koma munu í ríkiskassann frá slitabúum föllnu bankanna við losun fjármagnshafta verða eyrnamerktar því að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á RÚV að loknum blaðamannafundi um losun haftanna í dag.



Bjarni sagði að það væri bundið í frumvarp um stöðugleikaskattinn að tekjurnar færu ekki í annað en að greiða niður skuldir. Gæta þyrfti nefnilega að því að þær miklu fjárhæðir sem um ræðir færu ekki út í hagkerfið með tilheyrandi þenslu og verðbólgu.



Fjármálaráðherra sagði afleiðinguna af því að greiða niður skuldir ríkissjóðs meðal annars þá að vaxtabyrði ríkisins muni lækka um tugi milljarða á ári. Þar af leiðandi myndist svigrúm til þess að styrkja innviði samfélagsins.


Tengdar fréttir

Bjarni Benediktsson: „Mikil og ánægjuleg tímamót“

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að stjórnvöld hafi reynt að nálgast vandamálið vegna hafta með það að leiðarljósi að koma með heildstæða lausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×