Viðskipti innlent

Sigurjón áfrýjar dómnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurjón Árnason og Sigurður G. Guðjónsson í bakgrunni.
Sigurjón Árnason og Sigurður G. Guðjónsson í bakgrunni. Vísir/GVA
Sigurjón Árnason ætlar að áfrýja tólf mánaða fangelsisdómnum sem hann fékk í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þetta staðfestir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður hans, í samtali við Vísi.

Níu mánuðir dómsins eru skilorðsbundnir og auk þess dragast frá dómnum nokkrir dagar sem Sigurjón var í gæsluvarðhaldi árið 2011 vegna málsins. Hann þarf því að óbreyttu að sitja inni í tæpa þrjá mánuði.

Auk Sigurjóns voru Ívar Guðjónsson og Júlíus Steinar Hreiðarsson dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundið, fyrir að hafa handstýrt verði hlutabréfa á tímabilinu 29. september til 3. október. Ákæran náði til háttsemi þeirra yfir 228 daga en voru þeir dæmdir fyrir hegðun sína þessa fimm daga.

„Það að það sé búið að velja einhverja örfáa daga rétt síðustu dagana fyrir hrun finnst mér ekki vera í samræmi við það sem ákært var fyrir. Ef maður hefði vitað það þá hefði maður átt að verjast því, því þá hefði maður auðvitað gert það. Ákæran var einfaldlega of óljós til að hægt hafi verið að verjast henni,“ sagði Sigurjón við Vísi í dag.

Sigurjón þarf að greiða helming málsvarnarlauna Sigurðar G sem nema rúmum 39 milljónum króna. Hinn helmingurinn verður greiddur af ríkissjóði.

Dóminn má lesa hér.


Tengdar fréttir

Sigurjón dæmdur í tólf mánaða fangelsi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir,






Fleiri fréttir

Sjá meira


×