Skoðun

Rektorskosningar Háskóla Íslands 2015

Helga M. Ögmundsdóttir og Jórunn E. Eyfjörð og Ágústa Guðmundsdóttir skrifa
Háskóli Íslands kýs sér nú nýjan rektor í fyrsta sinn í 10 ár. Tvennt er breytt frá því sem var fyrir 10 árum: Núverandi rektor hefur setið lengur en fyrirrennarar hennar þar sem tímabilið var lengt úr 3 í 5 ár og nú var í fyrsta sinn gefinn kostur á að umsækjandi um embætti rektors Háskóla Íslands gæti verið utanaðkomandi. Undirbúningur rektorskjörs hefur því verið sérlega kærkomið tækifæri til ferskrar umræðu um málefni skólans og hefur hún náð út í samfélagið. Sá umsækjandi sem ekki kom úr HÍ hefur átt sinn þátt í því, bent á margt sem þarfnast skoðunar og endurbóta, enda er glöggt gests augað.

Í seinni umferð stendur valið nú milli tveggja mjög hæfra umsækjenda og starfsmönnum og nemendum HÍ er lúxusvandi á höndum. Hvort á að vega þyngra, reynsla i starfi vararektors eða þörf á endurnýjun? Það er tilgangurinn með lýðræðiskosningu til forystu að koma í veg fyrir að hún flytjist sjálfkrafa frá manni til manns innan kerfis. Háskóli Íslands hefur nú tækifæri til að kjósa sér rektor sem hefur vissulega ríkulega stjórnunarreynslu á sviði vísinda á Íslandi en einmitt utan miðlægrar stjórnsýslu Háskóla Íslands.

Hlutverk rektors Háskóla Íslands er margþætt og felur í sér víðtæk samskipti. Þar má fyrst nefna samræðuna við þjóðina. Hispurlaus framkoma Guðrúnar Nordal gerir henni auðvelt að ná góðu sambandi við fólk. Háskóli Íslands er lítill á alþjóðamælikvarða en nafn hans er samt stórt á sérstökum fræðasviðum. Þar eru jarðvísindin augljósasta dæmið, en annað dæmi eru miðaldafræði. Í þessu samhengi er rökrétt og vel við hæfi að velja rektor sem nýtur alþjóðaviðurkenningar á sviði miðaldabókmennta.

Starfsmönnum HÍ er þó skiljanlega kannski efst í huga það sem snýr að innra starfi hans sjálfs og hefur margt af því komið fram í umræðu undanfarinna vikna. Hér skal nefnt vinnumatskerfið, skoðun á því hvernig til hefur tekist með nýtt stjórnskipulag og skiptingu í svið og síðast en ekki síst nýliðun í akademískum störfum. Þar sem Guðrún hefur ekki verið hluti af stjórnsýslu HÍ undanfarinn áratug hefur hún forsendur til að koma að þessum málum með ferska sýn.

Helga M. Ögmundsdóttir, Jórunn E. Eyfjörð og Ágústa Guðmundsdóttir

Prófessorar við Háskóla Íslands


Tengdar fréttir

Maðurinn sem óhreinkar ekki skyrtuna sína

Það er kaldur þriðjudagsmorgunn í höfuðvígi rafmagns- og tölvuverkfræðinema í Háskóla Íslands. Klukkan er sautján mínútur yfir átta og tíu litlir verkfræðinemar hjúfra sig hver að öðrum í hlýjum, grátóna hettupeysum.

„Konuspil“ í rektorskjöri?

Nú styttist í seinni umferð í rektorskjöri við Háskóla Íslands. Í framboði eru þau Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal.

Snúum bökum saman – Jón Atla fyrir Háskóla Íslands

Það var ánægjulegt að sjá staðfestingu á þeim víðtæka stuðningi sem Jón Atli Benediktsson nýtur innan Háskóla Íslands þegar úrslit úr fyrri umferð rektorskosninga lágu fyrir á mánudag.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×