Enski boltinn

Mourinho: Þetta verður engin leikhúsferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United. Vísir/Getty
Einn af stórleikjum tímabilsins fer fram í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag þegar Manchester United tekur á móti Liverpool á Old Trafford.

Bæði lið hafa verið að spila frábærlega að undanförnu. United hefur ekki tapað í síðustu ellefu deildarleikjum sínum (unnið síðustu sex) og Liverpool ekki í síðustu sex.

Rauði herinn hans Jürgen Klopp er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Chelsea, en rauðu djöflarnir hafa verið að klífa töfluna síðustu vikurnar eftir erfiða byrjun og eru nú í sjötta sætinu, fimm stigum á eftir Liverpool.

United vann í gær 2-0 sigur á Hull í fyrri undanúrslitaviðureign liðanna í ensku deildabikarkeppninni en Liverpool leikur gegn Southampton í kvöld í sömu keppni.

Sjá einnig: Man Utd í góðri stöðu fyrir seinni leikinn | Sjáðu mörkin

„Þetta verður engin leikhúsferð hjá stuðningsmönnum,“ sagði Mourinho um leikinn en Old Trafford, heimavöllur United, hefur oft verið kallaður „leikhús draumanna“.

Mourinho og Klopp fallast í faðma.Vísir/Getty
„Þetta verður sérstakur leikur fyrir okkur. Ef við spilum ákafan fótbolta munu stuðningsmennirnir koma og spila með okkur. Þegar okkur mistekst þá heyrist minna í áhorfendunum,“ sagði stjórinn enn fremur.

„Það eru allir hrifnir af stórleikjum - leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn. Allir elska stórleiki þannig að við skulum reyna að fá stórleik á sunnudag.“

Sjá einnig: Coutinho snýr aftur gegn Southampton

United getur á sunnudag unnið sinn tíunda leik í röð í öllum keppnum en Liverpool hefur aðeins tapað tveimur deildarleikjum allt tímabilið - síðast gegn Bournemouth í byrjun desember í sjö marka leik.

Zlatan var ekki með United gegn Hull í gær vegna veikinda en Mourinho segir að Svíinn verði klár í slaginn.

„Það verður ekkert vandamál fyrir leikinn á sunnudag. Ég held að hann verði í góðu lagi þá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×