Erlent

Minnst 150 látnir í árásum Boko Haram í vikunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna samtakanna.
Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna samtakanna. vísir/epa
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, kallar nýjustu árásir skæruliðasamtakanna Boko Haram grimmilegan verknað. Yfir 150 manns hafa fallið í árásum í gær og í dag.

Samtökin hófu í vikunni að ráðast á þorp og smábæi í Bornó-héraði við Tsjad-vatnið í norðausturhluta landsins. Á miðvikudag felldu um fimmtíu skæruliðar 97 í bænum Kukawa og í gær var ráðist á mosku í þorpinu Monguno í gær þar sem 48 féllu.

„Þeir króuðu fólkið af, leyfðu því að klára bænirnar sínar áður en þeir skyldu konur og menn að. Síðan skutu þeir alla,“ segir sjónarvottur sem náði að flýja Monguno.

„Atburðir síðustu daga eru örvæntingarfullir dauðakippir hryðjuverkamanna á flótta,“ segir forsetinn Buhari. Hann hefur kallað eftir því að skipun herliðs sem á að uppræta samtökin verði flýtt.

Fjöldamorðin í vikunni eru þau mestu hjá Boko Haram í langan tíma. Samkvæmt Amnesty International hafa minnst 17.000 manns fallið í kjölfar voðaverka samtakanna frá árinu 2009.


Tengdar fréttir

Óttast að yfir 2.000 hafi fallið í vikunni

Landsvæði á stærð við Belgíu í norðaustur Nígeríu er nú undir yfirráðum Boko Haram. Nýjar árásaraðferðir hafa vakið mikinn óhug víða um veröldina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×