Erlent

Merkel ætlar hvergi að hvika þrátt fyrir fylgistap

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogar AfD-flokksins kampakátir með úrslitin á sunnudag.
Leiðtogar AfD-flokksins kampakátir með úrslitin á sunnudag. vísir/epa
Þriggja ára gamall stjórnmálaflokkur hægri þjóðernissinna, Alternative für Deutschland, hefur náð töluverðu fylgi undanfarið í kosningum til landsþinga í nokkrum sambandslöndum Þýskalands.

Nú síðast hlaut flokkurinn rúmlega fjórtán prósent atkvæða í kosningum til landsþingsins í Berlín á sunnudaginn var.

Þetta er sama fylgi og flokkurinn mælist með á landsvísu í Þýskalandi. Hann er nú kominn með menn á þing í tíu af sextán landsþingum Þýskalands og hefur fengið allt upp undir 25 prósent atkvæða.

Flokkurinn hefur verið í fararbroddi neikvæðrar umræðu um flóttafólk og útlendinga í Þýskalandi og virðist fylgisaukningin einkum tengjast þeirri umræðu.

Merkel kanslari sagði í gær að augljóslega væru kjósendur að refsa flokki hennar fyrir yfirlýsingar um að vel verði tekið á móti flóttafólki. Hún sagði úrslitin í Berlín afar sár og sagðist nú ætla að leggja sig fram við að útskýra stefnu sína í málefnum flóttamanna betur fyrir fólki. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×