Viðskipti innlent

Málið mikilvægt fyrir fjármál ríkisins og stöðugleika

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir niðurstöðu EFTA dómstólsins ekki koma sér á óvart.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir niðurstöðu EFTA dómstólsins ekki koma sér á óvart.
„Það var sjónarmið ríkisins í þeirri greinargerð sem skilað var að það væri ekki hægt að telja verðtrygginguna fyrirfram ósanngjarnan og ólögmætan skilmála. Að þessu leytinu til kemur niðurstaðan okkur ekki mjög á óvart,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um ráðgefandi álit EFTA dómstólsins í verðtryggingarmálinu sem birt var í morgun.

Dómstóllinn komst í morgun að þeirri niðurstöðu að tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda. Bjarni tekur fram að íslenska ríkið hafi ekki átt beina aðild að málinu en skilað í því grenargerð og fylgst með framvindu þess.

Hann segir þá grundvallarafstöðu að verðtryggingin sé ekki fyrirfram álitin ósanngjarn og ólögmætur samningur ekki hafa komið sér á óvart.

„Heldur verður það háð mati sem að innlendir dómstólar þurfa að framkvæma á skilmálum sem eru þarna undir hvort að sú útfærsla á verðtryggingunni sem að notuð er getur talist sanngjörn og réttlæg viðskipti manna í milli.“

„Mér finnst hins vegar mikilvægt að taka fram að réttur manna til að láta reyna á skilmála á borð við verðtrygginguna eða aðra skilmála í neytendasamningum er grundvallarréttur og ég geri engar athugasemdir við að menn láti reyna á hann fyrir dómstólum. Það er því ekki ástæða fyrir ríkið að fagna neitt sérstaklega,“ segir Bjarni.

Nú hefði það gríðarleg áhrif á ríkissjóð hefði niðurstaðan orðið sú að verðtryggingin sé ólögmæt, er það þá ekki fagnaðarefni að svo sé ekki, að minnsta kosti að svo stöddu?

„Við höfum fylgst með þessu máli vegna mikilvægis þess fyrir fjármál ríkisins og stöðugleika. Þýðingin fyrir ríkið væri fyrst og fremst vegna Íbúðalánasjóðs og af þeirri ástæðu hefur málinu verið fylgt eftir af stjórnvöldum. Það verður að segjast alveg eins og er að það eru svo margir óvissuþættir í málinu sem erfitt er að meta og það verður einfaldlega að bíða niðurstöðu dómstóla.“


Tengdar fréttir

Verðtryggingin heldur

Íslandsbanki vann fullnaðarsigur í máli gegn Gunnari V. Engilbertssyni fyrir EFTA dómstólnum.

Rökrétt niðurstaða að mati Viðskiptaráðs

Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir mikilvægt að málinu ljúki hjá íslenskum dómstólum. Bendir á að seinna málið fyrir EFTA-dómstólnum er óafgreitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×