Innlent

Lögregla gerir ráð fyrir fullum Austurvelli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jæja hópurinn verður á Austurvelli í dag.
Jæja hópurinn verður á Austurvelli í dag. Vísir/Þórhildur
„Við vonumst til þess að fólk komi vel fram við lögreglumennina okkar. Þetta eru sömu lögreglumenn og fólk er að fá til sín til aðstoðar við önnur tilefni. Við óskum eftir því að fólk sýni lögreglumönnunum okkar þá virðingu sem það á skilið.“

Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um fyrirhuguð mótmæli á Austurvelli í dag. Á áttunda þúsund manns hafa boðað komu sína þar sem kallað er eftir því að efnt verði til kosninga strax.

„Við erum með lögbundnar skyldur og hlutverk sem við verðum að sinna og gerum klárlega til að verja Alþingi Íslendinga þannig að við óskum eftir samstarfi við fólk við að passa að við getum gengið frá þessu með reisn.“

Forsvarsmenn Jæja hópsins undirbúa mótmæli í dag.Vísir/Þórhildur
Góð veðurspá

Veðurspá hljóðar upp á stillt veður og um átta stiga hita klukkan 17 en þingfundur á Alþingi hefst klukkan 15. Reiknað er með því að Sigmundur Davíð tjái sig við fjölmiðla fyrir þann tíma.

Ásgeir Þór segir lögregluna ekki gera sér alveg grein fyrir því hve von verði á mörgum á Austurvöll í dag.

„Við sendum ákveðið marga og svo eru aðrir sem eru tiltækir. Við viljum hafa þetta sem minnst og treysta á að fólk mæti þarna og mótmæli án þess að það séu endilega árásir á lögreglumenn eða eigur annarra.“

Hann vonast til þess að mótmælin verði í mestu friðsemd.

„En það er ljóst að það verður margt fólk, það verður sjálfsagt fullur Austurvöllur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×