Erlent

Le Pen telur sig fórnarlamb „fatwa“ fjármálastofnana

Kjartan Kjartansson skrifar
Hallað hefur undan fæti hjá Marine Le Pen og Þjóðfylkingu hennar eftir að hún laut í lægra hald fyrir Emmanuel Macron í vor.
Hallað hefur undan fæti hjá Marine Le Pen og Þjóðfylkingu hennar eftir að hún laut í lægra hald fyrir Emmanuel Macron í vor. Vísir/AFP
Bankareikningum Marine Le Pen og Þjóðfylkingar hennar í Frakklandi hefur verið lokað. Le Pen sakar „fjármálafámennisstjórn” um að reyna að kæfa stjórnarandstöðu og lýðræðið sjálft. Segir hún hægriöfgaflokk sinn fórnarlamb „banka-fatwa“.

Bankar í Frakklandi mega loka reikningum viðskiptavina einhliða. Það gerðu bæði Societe Generale og HSBC, að því er kemu fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Le Pen fullyrðir hins vegar að fjármál Þjóðfylkingarinnar séu í góðu jafnvægi.

Le Pen er nú til rannsóknar vegna gruns um að hún hafi misfarið með fé frá Evrópuþinginu. Fyrr í þessum mánuði var hún svipt friðhelgi sinni sem þingmaður vegna ólöglegrar birtingar hennar af hrollvekjandi myndum af liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Á brattann hefur verið að sækja hjá Le Pen eftir að hún beið ósigur fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningum í maí. Þjóðfylkingunni hefur vegnað illa í sveitarstjórnarkosningum síðan þá.

BBC segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Þjóðfylking Le Pen á í útistöðum við franska banka. Árið 2014 fékk flokkurinn lán frá Rússlandi eftir að franskir bankar neituðu að lána honum meira fé.

„Fatwa“ er trúarleg tilskipun í íslam. Þjóðfylking Le Pen hefur verið sökuð um andúð í garð innflytjenda og múslima í Frakklandi.


Tengdar fréttir

Ræða mögulega nafnabreytingu á Þjóðfylkingunni

Helstu leiðtogar frönsku Þjóðfylkingarinnar koma saman í dag til að ræða hvernig best sé að bregðast við ósigrum flokksins í nýlegum forseta- og þingkosningum í Frakklandi.

Þingnefnd sviptir Le Pen þinghelginni

Franska þingið svipti Marine Le Pen, sem laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningum fyrr á árinu, þinghelgi í gær. Þverpólitísk þingnefnd tók þá ákvörðun í gær.

Le Pen rannsökuð fyrir fjármálamisferli

Fjármálamisferlið er tengt Evrópuþinginu en þingið grunar að um fimm milljónir evra hafi verið greiddar aðstoðarmönnum Þjóðfylkingarinnar, stjórnmálaflokks Le Pen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×