Viðskipti innlent

Laugar taka við af Laugarvatni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fulltrúar Háskóla Íslands og World Class fyrir framan aðalbygginguna að undirritun lokinni.
Fulltrúar Háskóla Íslands og World Class fyrir framan aðalbygginguna að undirritun lokinni. mynd/world class
Fyrsta árs nemar komandi hausts í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands munu stunda verklega hluta náms síns í World Class Laugum. Samningur þess efnis var undirritaður á dögunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands og World Class.

Í febrúar síðastliðnum var ákveðið að flytja íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni og til Reykjavíkur. Nemum á öðru og þriðja ári á brautunum munu ljúka námi sínu á Laugarvatni en nýnemar næsta skólaárs munu vera í Reykjavík. Það má því segja að Laugar taki við af Laugarvatni.

„Við erum afskaplega ánægð með þennan samning við World Class en á háskólasvæðinu er ekki að finna nægilega góða aðstöðu fyrir verklega kennslu íþrótta- og heilsufræðinema,“ segir Jóhanna Einarsdótti forseti menntavísindasviðs háskólans. „Við þurftum ekki að leita langt því bestu íþróttaaðstöðu landsins er án nokkurs vafa að finna í Laugardalnum.“

„Við hlökkum til að fá til okkar nemendur Háskólans í íþrótta- og heilsufræði. Við leggjum mikla áherslu á að fylgjast með og taka þátt í því nýjasta sem er að gerast á þessu sviði enda er það markmið okkar að stuðla að hreysti og góðri heilsu landsmanna,“ segir Hafdís Jónsdóttir eigandi World Class.


Tengdar fréttir

Leggja til að loka háskóla á Laugarvatni

Í skýrslu sem unnin var fyrir rektor HÍ er lagt til að íþróttafræðasetrinu á Laugarvatni verði lokað og kennslan flutt til Reykjavíkur. Þingmenn kjördæmisins funduðu með rektor í gær og ætla að berjast gegn hugmyndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×