Innlent

Krefur Agnesi um hærri miskabætur

Erla Hlynsdóttir skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður gefur lítið fyrir afsökunarbeiðni Morgunblaðsins
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður gefur lítið fyrir afsökunarbeiðni Morgunblaðsins Mynd: GVA
„Þessi afsökunarbeiðni er hvorki fugl né fiskur," segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður um afsökunarbeiðni Morgunblaðsins í dag vegna rangfærslna Agnesar Bragadóttur.

Umbjóðandi hans, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður og fréttastjóri á DV, ætlar að halda máli sínu gegn Agnesi til streitu og fer fram á 2 milljónir króna í miskabætur, auk 500 þúsund króna vegna birtingar dómsins í fjölmiðlum.

Einnig verður farið fram á að Agnes sæti refsingu vegna ærumeiðinga í garð Inga Freys en allt að tveggja ára fangelsi liggur við broti af þessu tagi.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag.

Í umfjöllun Agnesar í Morgunblaðinu var Ingi Freyr sagður hafa réttarstöðu grunaðs manns í njósnatölvumálinu svokallaða. Í afsökunarbeiðni Morgunblaðsins í dag segir að „ofsagt" hafi verið um þetta atriði en staðfest hefur verið að um var að ræða rangan fréttaflutning.

Ingi Freyr var sagður grunaður um fjölda annars konar brota í frétt Agnesar en ekki er tekið á þeim atriðum í afsökunarbeiðninni, þar á meðal var Ingi Freyr sagður hafa gert dreng undir lögaldri út af örkinni til að stela fyrir sig gögnum úr tölvum.

Ingi Freyr heldur málinu gegn Agnesi til streitu
„Það má eiginlega gagnálykta út frá þessari afsökunarbeiðni. Gagnályktunin er þá sú að þeir biðjist ekki afsökunar á öðru í greininni. Það er auðvitað aljgörlega óásættanlegt," segir Vilhjálmur.

Hann segir Inga Frey fagna afsökunarbeiðninni í dag, þó hún gangi skammt. „Umbjóðandi minn fagnar því að Morgunblaðið biðjist afsökunar á þessu augljósa atriði enda þeim ekki stætt á öðrum þegar lögreglan hefur staðfest að þarna var rangt með farið," segir hann.

Vísir hefur áður fjallað um að Ingi Freyr gaf Agnesi og Morgunblaðinu frest til klukkan fjögur síðdegis á mánudag, daginn sem umrædd frétt birtist, til að leiðrétta hana, biðjast afsökunar og greiða milljón króna í miskabætur. Ekki var orðið við því.

Vilhjálmur segist gera ráð fyrir að stefna aðeins Agnesi, en ekki ritstjórum eða útgefendum Morgunblaðsins.




Tengdar fréttir

Krefur Agnesi um afsökunarbeiðni og miskabætur

Lögmaður Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sendi Agnesi Bragadóttur, blaðamanni Morgunblaðsins, bréf í dag. Í því eru gerðar þær kröfur að Morgunblaðið biðjist afsökunar á fréttaflutningi Morgunblaðsins í dag og einnig að Inga Frey verði greiddar miskabætur.

Morgunblaðið biðst afsökunar á rangfærslum Agnesar

Morgunblaðið birtir í dag yfirlýsingu frá ritstjórum Morgunblaðsins þar sem beðist er velvirðingar á röngum fréttaflutningi Agnesar Bragadóttur um Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann og fréttastjóra DV, þar sem hann var sagður hafa réttarstöðu grunaðs manns í „njósnatölvumálinu" svokallaða.

„Aðför að heiðri Inga Freys"

Reynir Traustason, ritstjóri DV, segir frétt Morgunblaðsins um tengsl blaðsins og Wikileaks og hugsanlega greiðslu fyrir stolin gögn aðför að heiðri Inga F. Vilhjálmssonar blaðamanns DV. Morgunblaðið segir Inga með réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn lögreglunnar á málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×