Erlent

Hlaut þakkir frá páfanum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Páfinn heilsar dótturinni sem Ibrahim fæddi í fangelsi í maí.
Páfinn heilsar dótturinni sem Ibrahim fæddi í fangelsi í maí. VÍSIR/AFP
Meriam Ibrahim, súdönsk kona sem flúði til Ítalíu eftir að dauðadómur hennar fyrir trúvillu var dreginn til baka, hitti í gær páfann í Róm. 

Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Ibrahim hlaut athygli heimsins þegar dómstóll í Súdan fyrirskipaði að hún yrði hengd fyrir að hafna íslamstrú. Mannréttindasamtök víða um heim fordæmdu þessa ákvörðun, en Ibrahim var komin átta mánuði á leið þegar dómurinn féll og dvaldi í fangelsi með ungum syni sínum. Ibrahim fæddi dóttur sína, Mayu, meðan á fangelsisvist hennar stóð. 

Fjölskylda Ibrahim kærði hjónband hennar í liðinni viku á þeim forsendum að ólöglegt sé fyrir íslamskar konur að giftast út fyrir trúna en eiginmaður hennar, Daniel Wani, er kristinn – rétt eins og Ibrahim.

Eftir að hæstiréttur felldi úr gildi dauðadóminn yfir henni, eyddi Ibrahim rúmum mánuði í bandaríska sendiráðinu í Khartoum.

Hún hefur nú komist til Rómar með eiginmanni sínum og börnum, en sjálfur forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, tók á móti henni á flugvellinum í gær. 

„Í dag er dagur fagnaðar,“ sagði Renzi er hann hitti Ibrahim og fjölskyldu hennar. Hún fékk svo að hitta páfann sem þakkaði henni fyrir trúfestu sína, en Ibrahim hélt því fram fyrir dómstólum að hún hefði alla tíð verið kristin.

Fundur hennar með páfanum varði í um hálfa klukkustund og segir talsmaður Páfagarðs hann vera stuðningsyfirlýsingu til allra þeirra sem hafa þurft að þjást fyrir trú sína.

Ítölsk yfirvöld höfðu ekki haft neina aðkomu að máli Ibrahim áður en hún ákvað að flýja til landsins en varautanríkisráðherra Ítalíu, Lapo Pistelli, flaug með henni frá Khartoum. Hann birti mynd á Facebook-síðu því til staðfestingar með yfirskriftinni, „Markmiðinu náð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×