Erlent

Hjartnæmt bréf Alex til Obama slær í gegn: Vill bjóða Omran í fjölskylduna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hjartnæmt bréf hins sex ára gamla Alex þar sem hann biður Barack Obama Bandaríkjaforseta að fara til Sýrlands til þess að ná í Omran Daqneesh frá Sýrlandi svo hann geti orðið hluti af fjölskyldu Alex hefur slegið í gegn. BBC greinir frá.

Hefur myndbandi þar sem Alex les úr bréfinu verið deilt 60 þúsund sinnum á Facebook en Alex, sem býr í New York sendi bréfið á Obama eftir að hann sá fréttir af Omran, sem bjargað var úr úr rústum byggingar sem varð fyrir loftárás í sýrlensku borginni Aleppo í ágúst.

Fyrsta blaðsíða bréfsins.Mynd/Hvíta Húsið
Varð hann skyndilega að táknmynd hörmunganna í Sýrlandi þegar fréttamyndir af honum þöktum ryki og blóði birtust um allan heim.

„Kæri Obama, manstu eftir stráknum sem var sóttur af sjúkrabílnum í Sýrlandi?“ skrifaði Alex en Hvíta Húsið birti bréfið. „Geturðu vinsamlegast farið til hans og sótt hann? Við bíðum eftir ykkur með blóm og blöðrur. Hann verður hluti af fjölskyldunni okkar og hann verður bróðir okkar.

Obama vitnaði í bréfið á sérstökum leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttamanna. Sagði hann að allir ættu að reyna að líkja eftir Alex.

„Ímyndið ykkur hvernig heimurinn væri ef allir væru eins og Alex. Ímyndið ykkur þjáningarnar sem við gætum bundið enda á og lífin sem við gætum bjargað,“ sagði Obama.

Þúsundir barna hafa búið við daglega ógn af umsátrum og sprengingum í Sýrlandi undanfarin ár. Frá því að átökin hófust í landinu árið 2012 hafa minnst 250 þúsund manns látið lífið og þar af minnst 15 þúsund börn.

Lesa má bréf Alex í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Omran er einn þúsunda

Barnalæknir í Aleppo í Sýrlandi segist hlúa að tugum særðra barna á degi hverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×