Erlent

Fimm ára drengur orðinn að andliti hörmunganna í Aleppo

Atli Ísleifsson skrifar
Myndir af fimm ára dreng, sem nýbúið er að bjarga úr rústum byggingar sem varð fyrir loftárás í sýrlensku borginni Aleppo, hafa vakið heimsathygli eftir að þær voru birtar í gær.

Á myndunum má sjá hinn fimm ára Omran Daqneesh þegar maður heldur á honum úr rústum byggingar og inn í sjúkrabíl þar sem drengnum er komið fyrir í sæti. Drengurinn er þakinn ryki og blóð rennur úr sári á enni drengsins.

Aleppo Media Center, sem berst gegn stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, birti myndbandið á YouTube seint í gærkvöldi að staðartíma og hefur fréttastofan AP staðfest að það sé ekki sviðsett.

Telegraph greinir frá því að Omran sé eitt fimm barna sem særðist í umræddri árás í hverfinu Al Qaterchi þar sem uppreisnarhópar, andsnúnir stjórn Assad, ráða ríkjum.  Syrian Observatory for Human Rights staðfestir að þrír hafi fallið í árásinni og tólf særst.

Myndirnar af Omran hefur verið líkt við myndirnar af Alan Kurdi, þriggja ára dreng, sem fannst látinn í fjöruborðinu á tyrkneskri strönd sem vöktu gríðarlega athygli og beindu auknum sjónum að málefnum flóttamanna.

Omran var fluttur á sjúkrahúsið M10 í Aleppo þar sem var hlúð að honum og var hann síðar úrskrifaður.

Raf Sanchez, blaðamaður Telegraph, hefur einnig birt mynd af drengnum þar sem búið er að koma sárabindi fyrir á höfði hans.

Sjá má myndband af atvikinu þegar Omran var fluttur inn í sjúkrahúsið að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×