Erlent

Trump dottaði þegar fyrsta saka­málið var tekið fyrir

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump á sakabekk í réttarsalnum á Manhattan í New York í gær.
Donald Trump á sakabekk í réttarsalnum á Manhattan í New York í gær. AP/Jabin Botsford

Ekki tókst að velja neina kviðdómendur á fyrsta degi réttarhalda í sakamáli á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York í gær. Trump sást dotta á meðan hæfi mögulegra kviðdómenda var metið.

Sakamálið í New York er það fyrsta þar sem fyrrverandi Bandaríkjaforseti er sakborningur. Trump er ákærður fyrir að falsa gögn til þess að fela greiðslu til fyrrverandi klámstjörnu til að koma í veg fyrir að hún segði frá kynferðislegu sambandi þeirra.

Tugum möglegra kviðdómenda var vísað frá þeir þeir sögðust ekki telja að þeir gætu verið hlutlægir og óvilhallir í gær. Velja þarf tólf kviðdómendur og sex varamenn. Enn á eftir að ganga á tugi kviðdómendaefna. AP-fréttastofan segir að það gæti tekið daga eða jafnvel vikur að fylla kviðdóminn.

Trump virtist ekki æsa sig sérstaklega yfir kviðdómendavalinu í gær. Hann sást draga ýsur á meðan dómari las leiðbeiningar til kviðdómendaefna. Washington Post segir að fyrrverandi forsetanum hafi virst áhugalaus á meðan verjendur hans og saksóknarar tókust á um hvaða sönnunargögn yrðu lögð fram í málinu.

Í sama streng tók Maggie Haberman, blaðamaður New York Times sem hefur fjallað um Trump um árabil. Fyrrverandi forsetinn hafi virst eirðarlaus og honum leiðst þegar hún fylgdist með honum í réttarsalnum.

„Honum leiðist auðveldlega, hann fiktar mikið. Hann þarf að sitja þarna og hann getur ekki verið í símanum sínum, hann getur ekki skoðað [samfélagsmiðil sinn] Truth Social. Hann getur ekki gert það sem hann gerir venjulega. Það verður honum erfitt, held ég,“ sagði Haberman í viðtali á CNN-sjónvarpsstöðinni.


Tengdar fréttir

Fyrsta saka­málið gegn Banda­ríkja­for­seta fyrir dóm

Söguleg réttarhöld yfir Donald Trump vegna ólöglegra greiðslna til klámstjörnu hefjast með vali á kviðdómendum í New York í dag. Þetta er er í fyrsta skipti sem fyrrverandi Bandaríkjaforseti er sakborningur í sakamáli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×