Erlent

Minnst sjö drepin í sprengju­á­rás í Sýr­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjöldi fólks særðist í sprengjuárásinni og sjö voru drepnir.
Fjöldi fólks særðist í sprengjuárásinni og sjö voru drepnir. AP/Syrian Civil Defense White Helmet

Minnst sjö voru drepin þegar sprengja sprakk í bíl á fjölmennum markaði í bænum Azaz í Aleppó-héraði í norðurhluta Sýrlands snemma í morgun. Nokkrir til viðbótar særðust í árásinni. Enn er óvitað hver ber ábyrgð á árásinni en svæðinu er stjórnað af tyrkneskum vígahópum sem berjast gegn Bashar Al-Assad forseta Sýrlands.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins var fjölmennt á markaðnum þegar sprengjan sprakk. Þar var fjöldi fólks að kaupa ný föt handa börnum sínum í tilefni hátíðarinnar Eid al-Fitr, sem markar endi föstumánaðarins Ramadan 11. apríl næskomandi.

Hvíthjálmarnir, sjálfboðaliðahjálparsamtök í Sýrlandi, segja minnst tvö börn í hópi hinna látnu. Myndefni sem birst hefur af vettvangi sýnir mikla ringulreið á markaðnum, brak eftir sprengjuna, lík á víð og dreif og eld í nærliggjandi bíl.

Bærinn Azaz er rétt við landamærin að Tyrklandi og hafa uppreisnarmenn haft höfuðstöðvar sínar þar svo árum skipti. Bærinn hefur því verið ákveðinn suðupunktur, ekki síst þar sem í gegnum bæinn eru fluttar vörur frá Tyrklandi.

Það er ekki óalgengt að sprengjuárásir séu gerðar í norðurhluta Sýrlands, þar á meðal Azaz. Árið 2017 voru meira en fjörutíu drepnir þegar bílsprengja sprakk fyrir utan dómshúsið í bænum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×