Erlent

Talinn hafa nauðgað Filippu nokkrum sinnum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Frá aðgerðunum um helgina.
Frá aðgerðunum um helgina. Skjáskot TV2

Hinn 32 ára maður sem er í haldi dönsku lögreglunnar vegna hvarfs hinnar þrettán ára Filippu er grunaður um að hafa nauðgað henni. Maðurinn var leiddur fyrir dómara klukkan 9 í morgun og gæsluvarðhalds krafist yfir honum.

Samkvæmt Danmarks Radio mætti maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, fyrir dómara í jogging fötum og appelsínugulum strigaskóm. Hann játaði brotin að hluta til en ekki hefur verið gefið upp hvaða brot hann hefur játað. Þinghaldið er lokað.

Maðurinn er grunaður um að hafa numið Filippu á brott, haldið henni í rúman sólarhring og nauðgað henni nokkrum sinnum. Á hann að hafa flutt hana einu sinni á milli húsa og hótað henni öðru kynferðisofbeldi.

Aðrir gætu tengst málinu

Samkvæmt saksóknara málsins er ekki hægt að útiloka að aðrir tengist málinu. Ekki er vitað hvar rannsókn lögreglunnar er stödd eða hvaða sönnunargögnum hefur verið safnað.

Filippa fannst eftir víðtæka leit í einbýlishúsahverfi fyrir utan Korsør á vesturhluta Sjálands. Hún hafði ekki skilað sér heim eftir að hafa borið út dagblöð í þorpinu Kirkerup.

Hjól, taska og sími Filippu fundust í vegarkanti á laugardaginn og hófst í kjölfarið umfangsmikil leit lögreglu. Lögregla greindi svo frá því síðdegis í gær að hún hafi fundist á lífi.

Uppfært klukkan 10:50

Fallist var á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir manninum til 11. maí.


Tengdar fréttir

Móðir Filippu segir hana komna heim og þakkar dönsku þjóðinni

Danska stúlkan Filippa, sem fannst á lífi í gær eftir umfangsmikla leit eftir að lýst hafði verið eftir henni, fannst í einbýlishúsahverfi rétt fyrir utan Korsør, vestast á Sjálandi. Móðir hennar þakkar dönsku þjóðinni í færslu á Facebook í gærkvöldi og segir dóttur sína vera komna heim.

Filippa fannst á lífi

Filippa, þrettán ára stúlka sem saknað hafði verið síðan í eftirmiðdaginn í gær, fannst á lífi í heimahúsi í Kirkerup í Danmörku í dag. 32 ára gamall karlmaður hefur verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×