Erlent

Á­kærð vegna brota á inn­flutnings­lögum og ó­lög­lega vörslu á fjar­skipta­tækjum

Atli Ísleifsson skrifar
Aung San Suu Kyi hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. febrúar.
Aung San Suu Kyi hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. febrúar. AP/Peter DeJong

Lögregla í Mjanmar hefur ákært Aung San Suu Kyi, kjörinn leiðtoga landsins, í nokkrum liðum, fáeinum dögum eftir að herinn tók völdin í landinu.

BBC segir frá því að gögn frá lögreglu sýni fram á að hún hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. febrúar. Er Suu Kyi grunuð um brot á innflutningslögum landsins og vörslu á ólöglegum fjarskiptatækjum.

Herforingjar frömdu valdarán í landinu á mánudag og hnepptu hundruð þingmanna í varðhald, þar á meðal leiðtoga landsins Aung San Suu Kyi.

Ekki er vitað með vissu hvar Suu Kiy sé haldið, en óstaðfestar fréttir herma að henni sé haldið fanginni á heimili sínu í höfuðborginni Nay Pyi Taw.

Lögreglugögnin sýna einnig að forsetinn Win Myint hafi einnig verið ákærður vegna gruns um að hafa brotið gegn lögum sem meina samkomur vegna kórónuveirunnar. Hann hefur líkt og Suu Kyi verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Herforinginn Min Aung Hlaing fór fyrir valdaráninu og hefur komið á ellefu manna herforingjastjórn sem á að stýra landinu næsta árið eftir að sérstöku neyðarástandi var lýst yfir.

Herforingjarnir hafa reynt að réttlæta valdaránið með því að vísa í að kosningasvindl hafi viðgengist í kosningunum í nóvember þar sem flokkur Suu Kyi vann mikinn sigur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×