Innlent

Leggur til að listamannalaun verði tífölduð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti í dag grein á Vísi þar sem hann lagði til að listamannalaun yrðu tífölduð. Hans hugmynd felst í því að greiða listamannalaun til tíu sinnum fleiri listamanna en nú er gert. Með þessu verði hægt að sporna við auknu atvinnuleysi sem hlýst vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Í ár eru það 325 listamenn af 1544 sem fá greiddar rúmar 407 þúsund krónur á mánuði í listamannalaun, flestir þrjá til tólf mánuði af árinu. Ágúst Ólafur bendir á að listamannalaun kosti hið opinbera nú um 650 milljónir króna og segir að tíföldun þeirrar upphæðar myndi kosta ríkissjóð um það bil jafn mikið og eitt prósent atvinnuleysi.

Þá segir hann að einnig væri möguleiki að hækka listamannalaun að miðgildislaunum í landinu, upp í 650 þúsund krónur. Eins bendir hann á að listsköpun myndi aukast, öllum til hagsbóta og það ekki síst á þessum óvanalegu tímum.

„Listin og menningin er það sem gerir okkur að Íslendingum. Listafólk hefur staðið með okkur, nú á þessum erfiðum tímum, en líka alltaf áður. Nú skulum við standa með þeim, þegar á reynir. Tíföldum listamannalaunin strax.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×